Ræða flutt á 40 ára afmæli Geðhjálpar.

Á tímamótum sem þessum er vert að líta til baka og skoða hvað hefur gerst og áunnist. Mér hefur til dæmis tekist að hanga tilfinningalega og andlega og þar með líkamlega í því áfalli að hafa verið svipt sjálfræði og flutt með lögregluvaldi inná Klepp.

Það eru akkúrat upp á dag 40 árum síðan og hver hefði trúað því þá, þennan dag sem heimurinn fórst að ég stæði hér í Hátíðasal Háskóla Íslands og væri að berja djöfulinn með aðferðum Sæmundar Fróða.

Já mér hefur sem sagt tekist að hanga í þessari vanlíðan, bera þennan harm í fjörutíu ár, ég hef auðvitað gert ýmislegt annað á meðan eins og gengur, ég hef aðallega unnið með sjálfsræðissviptingu í sporunum því allir þeir ótal geðlæknar sem ég hef leitað til virðast ekki hafa gert sér grein fyrir að það er áfall að veikjast, það er áfall að vera sviptur og endilega komið þið sem flest áföll þótt kvótinn sé búinn, en ég er alveg til í að fá áföll, áfall getur verið góð saga og ég get lært ýmislegt af mínum áföllum, en bara plís bara nefna þetta að það sé áfall að veikjast og vera sviptur. (Ég er reyndar til í að fá ekki fleiri áföll!!)

Ég ætlaði að kynna mig hérna eins og fín manneskja, ég hefði veikst af geðhvörfum árið 1979 talið mig vera Jesú, fyllt af ótrúlegum krafti guðs sem hefði sérvalið mig tilað frelsa heiminn, til þess átti ég að fara uppí sjónvarp og birtast í beinni útsendingu, til að halda þessum veruleika gangandi las ég stöðugt skilaboð af umferðarskiltum og mannanöfnum, merking mín hrundi þegar sjúkdómurinn rústaði mér og ég varð að búa til aðra merkingu.

Einhvern tíma þegar mér hafði batnað sá ég fjórar gæsir fljúga yfir Hringbrautina, í stað þess að þær bæru þá þrúgandi merkingu að vera merking, merking um höfuðáttirnar, elementen, þá voru þetta bara fjórar gæsir. Þvílíkur léttir.

En það er alltaf merking,

Líka þegar er engin merking.

Þá er engin merking.

Ekki merking verður merking.

Það er þrjár ástæður sem ég sé að hefðu getað leyst sjúkdóminn úr læðingi, föðurmissir, ástarsorg og hassreykingar.

Ég varð eiginlega geðveikust af hassreykingum, hitt voru sona tiltölulega eðlilegar sorgir, til dæmis fannst mér eftir ár fínt að pabbi minn væri dáinn, hann hefði verið harðstjóri í mínu lífi og nú myndi eitthvað gerast. Í staðinn fyrir að fagna frelsinu sagði ég ekki nokkrum lifandi manni frá þessu.

Ég var svipt sjálfræði, sett inná Klepp, kom mér út þremur dögum seinna, og allur veturinn fór í svakalegt þunglyndi þar sem mér fannst ég gæti aldrei orðið partur af samfélagi.

Og einhver skömm sem ég skildi svo þegar ég las texta eftir Huldu Dóru Styrmisdóttir sem mátti finna í bók fjölskyldunnar; að þessa skömm hefði ég einfaldlega numið úr samfélaginu.

1997 veiktist ég aftur. Af höfnun karlmanns. Ég hafði búið til þessa höfnun til, virtist vera, til að fá sömu niðurstöðu, þetta frelsandi afl geðveikina.

Geðveikin er ekki frelsandi afl. En hún lýgur því að þér …. Í formi orku, þessi orka birtir hugsanir eins og nú ertu loksins lifandi. Ég fékk mann á heilann í tíu ár og það var ekki fyrren ég sagði honum frá því að manían blossaði upp. Þegar hann hafnaði mér.

Ég var 2 mánuði á geðdeild þetta sumar, hótað sjálfræðissviptingu, hótað spennitreyju af læknum ef ég tæki ekki lyf, geðlæknirinn minn heimsótti mig daglega, ég hringdi í Guðmundu Elíasdóttur og söng fyrir hana daglega. Þegar ég kom heim var engin endurhæfing, ekki neitt, alls ekki neitt, og við mér blasti nýr sjúkdómur, sem ég er rétt svo að kannast við núna, heitir: Óboðnar hugsanir.


Knúsið: Elísabet kenndi forsetanum að dansa valsinn sem hún lærði á geðdeild.
Fréttablaðið/Valli

KNÚSIÐ: Þegar mamma mín dó fóru allir að knúsa mig. Ég þoldi ekki knús. Mér fannst oft eins og ég væri í fangelsi því fólk var að setja hendurnar utan um mig og þrýsta sér að mér. Þegar ég sagðist ekki vilja knús varð fólk móðgað. Svona var þetta þar til síðustu páska. Þá veiktist ég og þurfti að vera inn á geðdeild í 10 daga. Þá var ungur maður í næsta herbergi við mig sem spurði mig: „Viltu dansa?“

Ég sagði: „Ja, ég kann nú ekkert að dansa gömlu dansana.“

Hann sagði þá: „Ég skal kenna þér vals, ég var að læra það á netinu.“

Svo kenndi hann mér, ég hef oft reynt að læra þennan vals, en hann var sá fyrsti sem kenndi mér vals, maðurinn inn á geðdeildinni. Og svo dönsuðum við þrisvar á dag, kannski nokkrar sekúndur í einu, tvo, þrjá hringi og svo fattaði ég síðasta daginn að þetta var svona knús sem hentaði mér. Þá gat ég horft í augun á honum og það var bil á milli okkar og við héldumst í arma en vorum samt ekki klesst upp við hvort annað og vorum á hreyfingu í staðinn fyrir að vera eins og klettur. Það var swing í þessu. Þetta uppgötvaði ég: Ef ég kannski hitti Andra Snæ á Laugaveginum þá myndi ég vilja knúsa hann svona. Ég var að reyna að kenna forsetanum þetta knús og öllum öðrum í salnum.


Í þetta sinn fékk ég greiningu, Bipolar 1 og ætti að taka líþíum, mér fannst fínt að fá greininguna, ég vissi að eitthvað var að, en ég ætlaði að lækna mig sjálf og vildi ekki taka nein lyf. Það kostaði mig fjórar lífshættulegar maníur í viðbót, enginn sinnti sérstaklega um mig og börnin. Einhvern veginn tókst mér að ferma þá vorið 1998. Sama ár minnir mig fór ég á geðhvarfafundi.

Þar sat ég í tíu ár og var farin að koma í sjónvarp og fjölmiðla og tala um þetta, meira að segja ég og mamma komum saman í sjónvarpsþátt. En það voru geðhvarfafundirnir sem áttu einna stærstan þátt í því að ég færi að taka lyf.

Lifna við. Ein kona út á strætóstoppistöð, hún var á hækjum og með tæki í hálsinum sem hún talaði með og hún sagði: Þú ert að lifna við.

Sagði hún án þess að vita að ég væri byrjuð að taka lyf.

Það minntist enginn á að líþíum gæti skaðað nýrun og ef ég dey úr nýrnabilun eða nýrnakrabbameini þá hef ég fengið 20 góð ár og ég fékk meira að segja verðlaun fyrir þessi góðu ár á síðasta ár. Úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins.

Nýrnabilun er óafturkræf segir læknirinn, ég er komin á blóðþrýstingslyf og á að vera á lyfjum út af kólesteróli, allt út af læknamistökum.

Ég drekk svo mikið út af þessum nýrnaskemmdum og þegar ég er búin að drekka 5 lítra af vatni er mig farið að langa svo í kók og appelsín að ég fitna og það er heldur ekki gott fyrir nýrun.

Þetta er vítahringur.

Ég kalla þetta nýrnaskerðingu en ekki bilun.

Orðin skipta máli.

En ég tek Alóe vera, bið bænir og er búin að biðja um kraftaverk en hef ekki læknast því ég hef þagað um þetta, og ekki kært þessa lækna. Það er gamla lága sjálfsmatið. Fyrir utan að ég varð lítil í mér þegar ég veiktist.

En já. Þetta átti nú að vera stutt kynning á þremur stórum maníum.

Ég gæti að vísu skrifað sérgrein um þriðju maníuna, þetta þriðja ógeðslega skrímsli.

Þriðja manían gerði vart við sig, - þegar ég var tekin af lyfjunum.

En þá sætir líka áfallastreituröskunin færis og reynir að koma upp á yfirborðið. Ég hef verið að vinna líkamlega úr áföllum gegnum árin en kannski verð ég að gera betur. Og halda áfram þessari líkamlegu vinnu. Sigurlína Davíðsdóttir sem ég hef verið að lesa eftir upp á síðkastið segir að heilinn geymi áföllin ekki beinlínis heldur séu þau geymd í líkamanum.

Um það er ég nú að skrifa bók.

*

Í öðrum hluta ætlar Elísabet að segja nánar frá þriðju maníu sinni. Textinn verður birtur væntanlega á næstu dögum eða þegar henni hentar.