Þegar Strikinu í Kaupmannahöfn var breytt í göngugötu árið 1962 kallaði það á hörð mótmæli efasemdarfólks og hagsmunaaðila sem töldu að bílar og aukin umferðarmannvirki væri eina rétta, hagvæma og ábyrga leiðin til að bæta mannlíf og efla hagsæld. Fólk sem taldi að það væri allt of kalt og vont veður í Danmörku til þess að fýsilegt væri að draga úr umferð með þessum hætti. Annað hefur komið á daginn, þessi hugvitsamlega breyting varð upphafið að miklu stærri og áhrifameiri þróun í borginni sem nú er þekkt um víða veröld sem byggilegasta borg í heimi þar sem mannlíf, lífsgæði íbúa, greiðar samgöngur og umhverfi er sett í forgang.

Í nýrri nýsköpunarstefnu stjórnvalda stendur: „Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar. Með því getum við fundið lausnirnar og svörin sem munu gera það mögulegt að bjóða upp á framúrskarandi lífsgæði í harðbýlu landi. Stærsta hlutverk nýsköpunarstefnu stjórnvalda hlýtur því ávallt að vera að finna leiðir til þess að leyfa þeim sköpunarkrafti að brjótast fram, finna frjósaman farveg, vaxa, dafna og þroskast í opnu og frjálsu umhverfi alþjóðlegrar samkeppni og samvinnu. Stefna stjórnvalda í málefnum nýsköpunar verður að snúast um nálgun og aðferðir.“

Hönnun er nýsköpun og aðferð til að ná fram breytingum í þágu lífsgæða, umhverfis og atvinnulífs enda hljóta hönnuðir menntun sem snýst um gagnrýna hugsun, læsi á mannlíf og samfélag, nýsköpun og frumkvöðlahugsun. Hönnun snýst um að leysa fjölbreytilegar áskoranir.

Víða á Norðurlöndum hefur verið lögð áhersla á hönnun í þróun atvinnulífs og samfélags, fyrst sem vörumiðaða hönnun, sbr. mannvirki, húsmuni og fatnað sem hefur skapað verðmæt störf, þekkingu og gæði og grunn fyrir skilningi á nýjum greinum hönnunar. Í dag er þróunin að færast yfir til óefnislegrar hönnunar og hönnunarferla sem bæta upplifun, gæði og auka notagildi. Fjárfestingar í hönnun geta aukið samkeppnishæfni fyrirtækja og stjórnvöld geta nýtt aðferðir hönnunar til að ýta undir stórar umbætur í samfélaginu og til að takast á við flóknar alþjóðlegar áskoranir eins og loftslagsbreytingar.

Hönnun sem mótandi afl frá upphafi verka til að ná nýrri og oft óvæntri niðurstöðu er tæki sem okkur bráðvantar nú þegar við stöndum frammi fyrir stórkostlegum breytingum. Hönnun hefur nú lyklihlutverki að gegna því árangurinn mun fara eftir því hvort við náum jafnvægi milli ólíkrar þekkingar á mannlífi, tækni og vísindum. Nú er tími til að snúa áherslum á hvolf og virkja ímyndunaraflið, beita skapandi aðferðum og líta á áskoranir sem spennandi verkefni.

Stjórnvöld sem ætla að fjárfesta í framtíðinni verða víkka sýn og þora að veðja á skapandi, nýjar og spennandi lausnir. Hönnun er nýsköpun sem er ekki aðeins grundvöllur efnahagslegrar velgengni heldur lykillinn að úrlausnum á stærstu viðfangsefnum komandi áratuga.

Hönnunarmiðstöð Íslands er miðja og hreyfiafl hönnunar og arkitektúrs til breytinga í þágu atvinnulífs, samfélags og menningar á Íslandi. Miðstöðinni var falið það hlutverk af stjórnvöldum að kynna og auka skilning á mikilvægi hönnunar hér á landi og erlendis og auka vægi hönnunar innan fyrirtækja og stjórnkerfis til að auka gæði, virði og efla stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi.

Miðstöðin sinnir fjölbreytilegri ráðgjöf og er í auknum mæli að vinna beint með atvinnuífi og stjórnkerfi í að móta aðferðir til að efla hönnun og tryggja að hönnuðir komi fyrr að borðinu og taki þátt í vinnu við stefnumótun og ákvarðanatöku. Miðstöðin býr að gríðaröflugu baklandi, mannauði með fjölbreytilega reynslu og þekkingu sem hægt er að virkja miklu betur í þágu íslensks samfélags.

Hönnunarmiðstöð hefur verið byggð upp af greinunum sjálfum, einstaklingum, fyrirtækjum og stjórnkerfi og hefur náð að skapa fjölda verðmætra verkefna og þrýsta á breytingar. Hún hefur staðið að öflugu kynningarstarfi, ráðgjöf og þjónustu og fjölda innlendra og erlendra samstarfs-, kynningar- og rannsóknarverkefna.

Með breiðu átaki, en mjög litlu fjármagni, hefur tekist að byggja upp verkefni sem skipta sköpum fyrir hönnun á Íslandi, eins og HönnunarMars sem er stærsta kynningarafl íslenskrar hönnunar hér heima og erlendis, Hönnunarverðlaun Íslands, Hönnunarsjóð og HA tímarit.

Mótun hönnunarstefnu sem Hönnunarmiðstöð stóð að í samstarfi við stjórnvöld markaði tímamót en í kjölfar endurskoðunar hennar árið 2018 ákváðu stjórnvöld að samþætta hönnunar- og nýsköpunarstefnu. Framkvæmd hennar er hafin og nýlega var blásið til öflugra aðgerða í þágu fjárfestinga í nýsköpun. Nú þurfa stjórnvöld að efla hönnunarhluta stefnunnar með því að fjárfesta í hönnun, greiða leiðir fyrirtækja sem byggja á hönnun, efla verulega hönnunarsjóð og reka styrkari stoðir undir Hönnunarmiðstöð Íslands.

Í samanburði við önnur Norðurlönd erum við eftir á þegar kemur að áherslum á hugvit, hönnun og skapandi greinar. Það er eins og kjark og sannfæringu vanti til að taka stór skref og fjárfesta af sama krafti og í öðrum atvinnugeirum. Til að skapandi greinar á Íslandi verði öflugur atvinnuvegur og fjórði burðarásinn í íslensku hagkerfi verða stjórnvöld að átta sig á umfanginu og vinna að uppbyggingu þeirra af fullum þunga þvert á ráðuneyti.

Margt er sjálfgefið á Íslandi eins og að malbika götur og bílastæði og sjaldnast efast um þann kostnað. Undanfarin ár hefur rekstrarsamningur stjórnvalda við Hönnunarmiðstöð Íslands jafngilt kostnaði við 50 metra af malbiki eða 3-4 bílastæði.

Fyrsta leiðarljós glænýrrar nýsköpunar [hönnunar] stefnu stjórnvalda er að „hugvit einstaklinga sé mikilvægasta uppspretta nýsköpunar“. Hönnun er hugvit og vannýtt auðlind á Íslandi svo það er ekki eftir neinu að bíða, við þurfum að hendast inn í framtíðina, fjárfesta í svo sem eins og tuttugu og fimm kílómetrum af hönnun og leyfa sköpunarkraftinum að brjótast fram í þágu lífsgæða, umhverfis, sjálfbærni og nýrra kynslóða.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands sem er hreyfiafl og miðja í eflingu og sjálfbærri þróun hönnunar og arkitektúrs á Íslandi.