Svona sé ég þetta fyrir mér: Við vöknum að morgni 21. desember. Það snjóaði um nóttina og um gjörvalla Reykjavík er þögult samkomulag um að þessi þriðjudagur sé sunnudagur. Snjórinn er hvítur og fyrir utan fótspor og sleðaför er hann ósnertur.

Ég helli upp á kaffi og geri grautinn, það er í mínum verkahring. Við Hófí, kærastan mín, horfum út í garð. Grillið mitt er hvíthært og ég djóka um það að grilla kvöldmatinn, að ég láti svona smotterí ekki stoppa mig og Hófí hlær eins og maki einhvers sem er alltaf að segja brandara.

Við klæðum okkur í vetrarúlpu og föttum að við hefðum betur beðið með það af því að það tekur heila eilífð að reima vetrarskó. Það kemur móða á gleraugun og við fáum bæði innilokunarkennd.

Á leiðinni upp Holtsgötuna dregst Hófí ögn aftur úr. Ég tek ekki eftir því fyrr en ég fæ snjóbolta í bakið og þegar ég sný mér við fæ ég annan í magann og þegar ég ætla að hefna mín útskýrir hún að leikurinn sé búinn. Stuttu seinna þykist ég ætla að fella hana í snjóskafl. Hún þegir hljóði maka einhvers sem er alltaf að segja brandara.

Á Landakotstúni er margmenni, nágrannar okkar og vinir. Ég segi þeim öllum frá snjalljólaseríunni minni, útskýri að með henni sé hægt að teikna myndir á jólatréð. Við veljum jólatré, litla hríslu sem enginn annar myndi elska, við segjum hvort öðru það rétt eins og öll önnur sem keyptu litla hríslu sem enginn annar myndi elska. Og þegar tréð fer í netið verð ég aftur barn, með pabba á Landakotstúni síðasta árið sem við keyptum lifandi tré og ég ranka við mér heima, sem fullorðinn maður sem skilur ekki mekanismann á bak við jólatrésfótinn.