Á heimili mínu er stundum tungumálaóreiða, enda tölum við þrjú tungumál alla daga: íslensku, afríkönsku og ensku. Í samtölum við matarborðið er gjarnan skipt hratt á milli þessara þriggja mála og því þýðir ekkert annað en að virkja allar heilastöðvar vilji kona taka almennilegan þátt.

Ensku- og afríkönskumælandi heimilisfólk skilur heilmikið í íslensku þó það sé ekki endilega farið að tala hana í mjög miklum mæli. Þau æfa sig samt á hverjum degi, reyna að skilja og tala og gengur alltaf betur og betur. Stundum skammast fólk yfir því að þau sem hafa íslensku sem annað mál tali ekki íslensku. Í stað þess að kvarta ættum við að skoða hvað við erum að gera til að hjálpa fólki að tileinka sér tungumálið. Hvetja í stað þess að skamma. Vera svolítið peppuð. Besta leiðin til að varðveita íslenskuna er að sem flest lesi, skrifi og tali tungumálið. Með hreim, málfarsvillum, jafnvel slettum ef svo ber undir. Öllu því sem tilheyrir ferðalaginu að læra nýtt mál.

Við veltum stöðu og mikilvægi tungumálsins ekki fyrir okkur á hverjum degi. Þó má segja að íslenskan sé okkar helstu menningarverðmæti, ásamt handritunum, sem skrifuð eru á íslensku sem við skiljum ennþá. Ekki getum við montað okkur af gömlum og glæsilegum höllum eða kastölum. Ég hef þó alltaf verið svolítið skotin í torfkofunum, þó að formæður og -feður okkar hafi líklega ekki átt neina sældarvist í þeim húsakynnum. En þau lásu þó almennilegar bækur og sögðu sögur, þó að handritin hafi stundum verið étin, þegar illa áraði.