Að börn njóti sömu tækifæra óháð uppruna er ein af stærstu áskorunum nútímans. Ísland er að mörgu leyti ungt fjölmenningarsamfélag og er brýn þörf á því að skapa hér samfélag með jöfnum tækifærum og stuðla að aukinni samfélagsþátttöku barna og fullorðinna af erlendum uppruna. Í þessu samhengi er tungumálið okkar lykilatriði. Börnum með annað móðurmál en íslensku fjölgar í skólakerfinu en árið 2019 voru 5.343 grunnskólanemendur á Íslandi skráðir með erlent móðurmál en árið 2009 voru þeir 2.314 (Hagstofa Íslands). Það ætti því að vera í brennidepli hjá sveitarfélögum að styrkja íslenskukunnáttu þessa hóps á sama tíma og fjölbreyttum uppruna hans er fagnað.

Í vor kynntist ég samtökunum Tungumálatöfrar og í kjölfarið vann ég fyrir þau rannsókn styrkta af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Tungumálatöfrar standa að íslenskunámskeiðum á Ísafirði fyrir tví- og fjöltyngd börn og kemur þar saman fjölbreyttur hópur sem lærir íslensku með listsköpun og leik. Án þess að fara djúpt í saumana á niðurstöðunum ætla ég þó að deila nokkrum áhugaverðum atriðum.

Meðal spurninga sem ég velti fyrir mér yfir sumarið voru hvaða börn það eru sem sækja námskeið Tungumálatöfra og hvað þau fá út úr því. Í lok sumars skilgreindi ég þrjá helstu hópa þeirra barna sem komu á námskeiðin. Í fyrsta hópnum eru börn búsett á Íslandi sem eiga foreldra af erlendum uppruna. Misjafnt er hvort annað eða bæði foreldri komu að utan. Í öðrum hópnum eru börn búsett erlendis sem eiga rætur að rekja til Íslands. Í þeim þriðja eru börn af íslenskum uppruna búsett á Íslandi.

Fyrsti og annar hópurinn áttu það sameiginlegt að börnin styrktu íslenskukunnáttu sína. Auk þess nefndu foreldrar þeirra ítrekað að þau tækju eftir auknu sjálfstrausti hjá börnum sínum og meiri ánægju þeirra við að nota tungumálið í daglegu lífi. Ástæður þessa má bæði finna í kennsluaðferðum og jákvæðu viðmóti kennara námskeiðanna en áhersla er lögð á að íslenska er nákvæmlega eins og við tölum hana sjálf, ein útgáfa er ekki réttari en önnur. Það er í lagi að fallbeygja vitlaust og það er í lagi að tala með hreim, íslenska er nefnilega alls konar. Foreldrar barna í fyrsta hópnum nefndu einnig jákvæðar afleiðingar þess að börn þeirra ættu aðra tvítyngda vini í von um að það myndi hvetja þau til þess að rækta móðurmálið sitt á sama tíma og íslenskan er efld.

Þriðji hópurinn var sá fámennasti en aðeins 20% þátttakenda áttu íslenska foreldra sem voru búsettir á Íslandi. Á sama tíma og þau voru öflugar málfyrirmyndir fyrir félaga sína var ávinningur þessara barna allra helst samfélagslegur. Þau uppskáru vináttu með börnum af öðru þjóðerni og fengu að kynnast örlítið hinum tungumálunum sem vinir þeirra töluðu. Fræi fjölmenningar var sáð sem ég er viss um að verði falleg uppskera af í framtíðinni. Vegna Tungumálatöfra fengu þessi börn að kynnast því snemma á ævi sinni hversu mikill styrkur liggur í fjölmenningu, í tvítyngi og blöndun menningarheima.

Það er í þessari fjölbreyttu flóru sem töfrandi máttur námskeiðanna á upptök sín. Hver hópur uppskar ólíkan lærdóm, hver fékk sína upplifun og allar voru þær jafn dýrmætar. Frítími er mikilvægur vettvangur fyrir félagsmótun og er brýnt að börn af erlendum uppruna taki að jöfnu þátt í tómstundastarfi og önnur börn í íslensku samfélagi. Hjá Tungumálatöfrum er tæplega helmingur þátttakenda börn nýbúa og því gott dæmi til þess að draga lærdóm af.

Tungumál eru svo sannarlega töfrum líkust. Töfrar sem leyfa okkur að tengjast, skiptast á hugmyndum og hefðum, eignast vini og vandamenn. Tungumál eru tækifæri og það er mikilvægt tól í því að efla börn af erlendum uppruna til samfélagsþátttöku. Ég skora á fulltrúa í fræðsluráðum sveitarfélaga að kynna sér aðferðir Tungumálatöfra, undirrituð skal með ánægju sitja fyrir svörum.