Íslensk tunga á í vök að verjast. Sú vörn hefur varað lengi. Hér hefur verið landlægur ótti um árabil við að ungmenni gætu ekki lesið sér til gagns og sé ekki úr því bætt má búast við að næstu kynslóð fari enn frekar aftur í þessu efni. Tungumál internetsins er enska, tölvuleikir að jafnaði sömuleiðis, þorri sjónvarpsefnis og kvikmynda sem standa til boða jafnframt.

Í samanburði við veröldina alla er Ísland lítið land þar sem fáir búa og íslenskan því örtungumál. Þeim mun harðari baráttu þarf að há fyrir tilvist hennar og viðgangi, enda er tungumálið vagga menningarinnar, eins og sagt er á uppskrúfuðum menningarstundum.

Áður hefur á þessum stað verið vikið að því að íslenskir fjölmiðlar eigi undir högg að sækja, ekki síst eftir að kóvið lagði sína köldu hönd yfir lönd og menn.

Nýlega var frá því skýrt að 70 prósenta hlutur í Forlaginu, stærsta bókaútgefanda landsins, hefði verið seldur til sænsks fyrirtækis, Storytel. Fullyrt er að áfram muni Forlagið gefa út íslenskar bækur á íslensku þrátt fyrir þetta. Einhverjir efast.

Nú er það sjálfstætt fagnaðarefni að finnast skuli einhver utan landsteinanna sem er tilbúinn til að setja fé í íslenska bókaútgáfu. En innan forlagsins er útgáfuréttur margra dýrmætustu perla íslenskrar bókmenntasögu. Ekki er vitað betur en þar á meðal sé rétturinn að verkum Halldórs Laxness. Það er sérkennileg staðreynd að Svíar, sem færðu honum Nóbelinn, skuli nú eiga rúmlega tvo þriðju útgáfuréttar verka hans.

Rithöfundasambandið hefur áhyggjur af þessari þróun. Sagði af stjórnarfundi þess í Fréttablaðinu á laugardag þar sem ályktað var um málið. „Stjórnin óttast að tilgangur eiganda Storytel á Íslandi, Storytel AB í Svíþjóð, sé að komast nær höfundarverki íslenskra höfunda og eyða allri samkeppni á hljóðbókamarkaði.“ Jafnframt sagði í ályktuninni að höfundar og útgefendur ytra hafi borið því vitni að frelsi þeirra og menningarleg áhersla hafi beðið hnekki með eignarhaldi Storytel AB. „Slíkt vekur ugg í brjósti höfunda hér á landi, sporin ytra hræða, en reynslan ein mun leiða í ljós hvort sama öfugþróun verði hérlendis.“

En eru áhyggjur af þessu ekki bara heimóttarskapur? Er málflutningur af þessu tagi ekki bara eitthvert röfl? Nei, það er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart þessari þróun. Nokkuð er liðið síðan prentun íslenskra bóka færðist nær öll úr landi. Og nú færist eignarhald langsamlega stærsta forlagsins út fyrir landsteinana. Eðli bókaútgáfu gæti verið að breytast úr menningu í afþreyingu. Hinn nýji eigandi er fremur tæknifyrirtæki en bókmenntafyrirtæki. Í þeim heimi gilda önnur lögmál.

Auðvitað er mönnum frjálst að fara með eigur sínar eins og þeim sýnist svo lengi sem það stríðir ekki gegn hagsmunum annarra og seljanda útgáfufélagsins er í sjálfsvald sett hvort og hverjum selt er. Það er því fremur þróunin sem ástæða er til að vera hugsi yfir.

Stjórnvöld styðja við íslenska bókaútgáfu með endurgreiðslum og lækkuðum virðisaukaskatti. Sú ívilnun rennur nú að þessu leyti úr landi.