Þrautaganga þolenda í kynferðisbrotamálum er orðin löng og ströng. Fyrr á öldum voru þolendur nauðgana oft smánaðir og dæmdir meðsekir gerendum sínum. Lengi eimdi eftir af þessu viðhorfi sem birtist í margvíslegum fordómum gegn þolendum, eins og druslu- og ölvunarskömm, sem gætir jafnvel enn. Afstaðan til gerenda hefur einnig verið óvægin. Brotamaðurinn, sér í lagi ef hann brýtur á börnum, iðulega brennimerktur sem níðingur og á varla afturkvæmt. Afstaðan skiljanleg því afleiðingar fyrir þolanda oft alvarlegar og langvarandi.

Samhliða hafa ríkt ímyndir um gerendur og þolendur. Ókunnugur aðili ræðst á þolandann í skuggasundi eða beitir eiturbyrlunum eins og skrímsli í mannsmynd. Mál af þessu tagi eiga greiða leið gegnum kerfið, fordæming á geranda alger og djúp samúð með þolanda. Rannsóknir sýna aftur á móti að raunmynd kynferðisbrota er oftar aðilar sem tengjast eða þekkjast, venjulegt fólk, ef svo má að orði komast. Sem á til að flækja myndina, þolandi tregur að leita réttar síns og ef athæfið er kært er gangan í réttarvörslukerfinu þyrnum stráð eins og dæmin sanna.

Kynferðis- og fíkniefnabrot

Í doktorsritgerð höfundar sem skrifuð var í lok níunda áratugarins, var málsmeðferð kynferðisbrota- og fíkniefnamála borin saman. Fíkniefnabrot tekin föstum tökum, enda álitin óvinur þjóðarinnar númer eitt og áttu að jafnaði greiðari leið gegnum kerfið en kynferðisbrot. Torveldara að sýna fram á sekt í kynferðisbrotamálum sem væru þó aðeins toppurinn af þeim málum sem náðu upp á yfirborðið, brottfall mála algengt og sýknudómar tiltölulega tíðir.

Þótt sömu sjónarmiðin um sekt eða sýknu eigi að ríkja í öllum brotategundum, var samanburðurinn eigi að síður sláandi. Refsimatið vitnaði sömuleiðis um ólíka afstöðu dómsvaldsins til þessara tveggja brota. Efri mörk refsirammans í fíkniefnabrotum iðulega notuð, en refsingar í kynferðisbrotum að jafnaði í neðri mörkum löggjafarinnar. Ástæðan hlyti að liggja í mati á því hvort brotið væri álitið alvarlegra samfélagsmein, kynferðisbrot eða fíkniefnabrot. Hefur afstaðan til þessara brota ekki eitthvað breyst síðan?

Þrátt fyrir ýmsar lagalegar úrbætur benda atburðir undanfarin misseri ekki til þess að staða þolenda kynferðisbrota hafi ýkja mikið breyst. Játningar sem fylgdu me-too bylgjunni virðast hafa lyft loki af pandóruboxi þöggunar og langvarandi gremju yfir máttleysi réttarkerfisins og lítið breyst síðan.Kynbundið ofbeldi birtist okkur í margvíslegu formi á stafrænni öld og kynferðisleg áreitni, sem lengi var að mestu litið fram hjá, ekki lengur liðin. Gerendum engin grið gefin og endurkoma þeirra í samfélagið dregin í efa. Trúum þolendum, nýja lausnarorðið og aðrar hliðar túlkaðar sem gerendameðvirkni. Þótt andófið gegn veikri stöðu þolenda sé skiljanlegt, er rétt að staldra aðeins við.

Mikilvægi óháðs aðila

Hvort sem okkur líkar betur eða verr verður að gæta ólíkra sjónarmiða og fá óhlutdrægan aðila til að skera úr um ámælisverða og refsiverða háttsemi. Réttarríkið kom einmitt til í upphafi til að þjóna hlutverki af því tagi. Enginn er sekur fyrr en sekt er sönnuð frammi fyrir óvilhöllum dómara, er lykilatriði. Dómstólar verða aftur á móti að endurspegla réttartilfinningu borgaranna og margt bendir til að gjá ríki milli stórs hluta borgaranna og réttarvörslukerfisins í kynferðisbrotamálum.

Ljóst er að styrkja verður réttarstöðu og rödd þolenda kynferðisbrota, án þess þó að kasta fyrir róða meginprinsippum réttarríkisins. Mikið verk virðist óunnið, en ekki síður í samfélaginu öllu þar sem eitruð karlmennska hefur verið látin afskiptalítil allt of lengi. Á sama tíma verður að gera þolendum kleift að vinna úr reynslu sinni og gerendum mögulegt að koma til baka að uppfylltum tilteknum skilyrðum, í ljósi málavaxta hverju sinni.