Í sjálfsævisögu sinni, Sögukaflar af sjálfum mér, lýsir séra Matthías Jochumsson sunnudagskvöldi í barnæsku þar sem hann lá vakandi í rúminu og heyrði samtal foreldranna. Þau höfðu verið við guðsþjónustu í sóknarkirkjunni sinni að Stað á Reykjanesi og ræddu predikun prestsins.

Guð á aðrar og stærri bækur

Hjónin á Skógum í Þorskafirði og foreldrar Matthíasar, þau Þóra Einarsdóttir og Jochum Magnússon, voru trúuð en deildu þarna efasemdum sínum um boðun kirkjunnar. Hugsanlega voru þau á undan sinni samtíð í þessum efnum. Hitt getur líka verið, að marga hafi á þeim tíma fýst að fara eigin leiðir í hinum andlegu efnum.

Í dag, 18. nóvember, er hundraðasta ártíð þjóðskáldsins. Matthías var næmur á þá hugmyndastrauma sem einkenndu samtíma hans og hann átti sér þann draum að verða prestur. Tilefni þess að hann segir frá samræðum foreldra sinna kann að tengjast því að sjálfur átti hann eftir að gera upp við játningar kirkjunnar. Síðar var eftir honum haft að þótt Biblían sé stórmerkilegt rit þá eigi skaparinn „aðrar enn þá stærri og betri bækur, sem enn eru látnar mygla á hillunni, meðan rétttrúnaðarfabrikkurnar berja þessa einu bók inn í fólkið – rétt eins og guð hafi ekkert satt orð talað, nema á milli hennar spjalda.“

Trúsnillingur

Guðfræði Matthíasar var af öðrum toga en þekkst hafði áður í opinberri umræðu hér á Íslandi, hvað svo sem fólk hugsaði og talaði um í hálfum hljóðum. Hann var mótaður af róttækum trúarstraumum sem komu fram í upphafi 19. aldar. Kenningar guðfræðinga á borð við Friedrich Schleiermacher fólu í sér uppgjör við þá ríkjandi stefnu, að lýðurinn í hverju landi ætti að fylgja játningum þjóðhöfðingjans. Í riti sínu Kristin trúfræði frá 1830 horfir Schleiermacher inn á við og talar um að vitundin um Guð sé bundin tilfinningum og samofin mannlegri reynslu. Kirkjan ætti að skapa svigrúm og miðla orðaforða sem gerði fólki kleift að tjá þá reynslu. Hún væri því ekki mælistika á átrúnaðinn heldur fremur umgjörð og stuðningur í trúarlegum efnum.

Þá ætti kirkjan að vera vettvangur fyrir fólk sem Schleiermacher kallaði „trúsnillinga“. Það er fólkið sem sker sig úr fjöldanum sökum innsæis og gáfna og getur með því mótað heilu samfélögin. Það hefur kjark til að rísa upp gegn viðteknum hugmyndum og venjum og mótar nýjar hugmyndir og sjónarmið. Orð þetta ber sterk einkenni rómantíkurinnar. Fylgismenn þeirrar stefnu hömpuðu snilligáfunni sem gat opnað augu fólks fyrir fegurð heimsins. Hún gat líka leitt af sér harmleik eins og á við um marga listamenn þessa skeiðs sem féllu fyrir eigin hendi. Það var eftirsóknarvert að fylla hóp slíks afburðafólks þótt það væri ekki auðvelt hlutskipti.

Þjóðkirkja

Sjálfur kann Matthías að hafa haft þessa sjálfsmynd og afstaða hans til játninga kirkjunnar styður og þá tilgátu. Hann var listamaður, skáld sem rýndi í umhverfi sitt og meitlaði kenndirnar í ljóðstafi og sálma. Fyrirmyndir sótti hann í kristna hugsuði sem höfðu bæði hugmyndaflug og djörfung til að víkja frá ströngum rétttrúnaði og leituðu leiða til að tengja boðskap trúarinnar við þarfir og kenndir fólks. Trúin var í augum Matthíasar síbreytilegur veruleiki, rétt eins og kenndirnar sem búa í mannssálinni. Afstaða hans var sú, að hver kynslóð kallaði á sína eigin túlkun og mynd af viðfangi trúarinnar. Hér var því ekkert fastmótað, heldur síkvikt og breytilegt.

Matthías fléttaði saman heima listar og trúar. Afrakstur þess varð sú persónulega guðfræði sem enn í dag höfðar til Íslendinga í sálmum hans og ljóðum. Upp úr þessari afstöðu sprettur hugmyndin um þjóðkirkju sem er bein þýðing úr þýsku á „Volkskirche“, kirkja sem tekur mið af þörfum fólksins. Íslenska þjóðkirkjan var stofnuð sumarið 1874 og var þá þjóðsöngur Íslendinga, „Lofsöngur“ Matthíasar við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, einnig frumfluttur.

Sú guðfræði sem Matthías aðhylltist varð til á krossgötum, þegar skipulag í trúarlegum efnum þótti hafa gengið sér til húðar og kallað var eftir nýrri hugsun og nýrri sýn. Nútíminn stendur að mörgu leyti í sömu sporum. Nú þegar þörf er á endurmati ýmissa þátta innan þjóðkirkjunnar, getum við sótt margt gott og gagnlegt í sjóði Matthíasar.

Höfundur er prestur.