Áhugi Donald Trumps á Grænland komst nýlega í heimsfréttir þegar hann lýsti því yfir að hann vildi kaupa Grænland. Framsetning hans var skv. hans „business“ stíl, en svar danska forsætisráðherrans móðgaði hann og skil ég það vel! Hún hefði t.d. vel getað sagt:

„Nei, Donald minn, þótt við Danir seldum ykkur Bandaríkjamönnum Jómfrúaeyjar með manni og mús fyrir hundrað árum getum við ekki gert svona lengur (þótt við kannski vildum!).“

En þegar hún kallar nú sambærilegan gjörning „absúrd“ get ég vel skilið að viðkvæm sál eins og Donald Trump móðgist og hafni matarboði drottningar!

Það eru fleiri en Trump sem hafa áhuga á Grænlandi vegna legu landsins m.t.t. siglinga og mögulegra hernaðarstöðva. Athyglisvert er að varaforseti Bandaríkjanna í nýlegri heimsókn sinni lagði mikla áherslu að vara við áhrifum og fjárfestingum Kínverja á norðurslóðum.

Áhugi á Grænlandi hefur ekki síður verið vegna ýmissa málma sem þar er að finna og get ég lítillega sagt frá því. Vorið 1962 var ég sem miðhluta læknastúdent á vakt á Kleppsspítala þegar ég fékk símhringingu frá fulltrúa danska ræðismannsins. Erindið var að finna lækni sem gæti farið til Meistaravíkur á Grænlandi í 2-3 vikur í millibilsástandi milli ráðninga tveggja danskra lækna. Hafði mikið verið leitað á Íslandi af „alvöru“ læknum en ekki fengist í þetta verkefni.

Eftir að hafa ráðfært mig við Guðmund Thoroddsen prófessor sem vann þá einnig á Kleppspítala sem sem ráðgjafi og hafði unnið í Meistaravík sló ég til. Hafði ég áður fengið þær upplýsingar að þar væru eingöngu fílhraustir námuverkamenn en ekki konur né börn. Mér krossbrá hinsvegar þegar ég kom til Meistaravíkur og uppgötvaði að þar voru tvær konur, önnur ólétt, og fjögurra ára barn og að dvölin gæti orðið tveir til þrír mánuðir. Ekki var hægt að snúa við, en meginstuðningur var „Lægebog for söfarende“ og nánast ótakmörkuð heimild til að biðja um sjúkraflug frá Reykjavík með loftskeyti. Beiðni um sjúkraflug vegna „sick person“ urðu að six persons í loftskeyti og ollu miklum viðbúnaði í Reykjavík. „Læknisstörfin“ redduðust eins sagt er á nútíma íslensku að öðru leyti og fjalla ég ekki meira um það.

Meistaravík gengur inn frá suðurströnd Kong Oscarfjarðar sem er norðan Scoresbysundsfjarðar nyrstu byggðar Inúíta og er á um það bil á 24° v.l. og 72°n.br. Ýtarleg könnun á þessum landshluta og málmleit hófst um 1950 undir forystu Lauge Koch. Á svæðinu fundust ýmsir málmar, smávegis af silfri og kopar en aðeins blý og zink í því magni að vinnsla borgaði sig. Nordisk Mineselskap að mestu í eigu Dana, en með hlutdeild Svía hóf vinnslu um 1950.

Löng flugbraut hafði verið gerð niður með ströndinni. Námaþorp með öllum þægindum hafði verið byggt í dal kallaður Blýdalur 14 km frá ströndinni og með stuttri flugbraut Námurnar voru fulltæmdar 1962, en mikið magn málma beið útskipunar sem aðeins gat farið fram þá 2 mánuði á ári sem fjörðurinn var íslaus.

Molybdenum málmur hafði fundist í fjalli kallað Malmbjerget um 30 km frá Blýdal inni á milli skriðjökla og var meginstarfsemi þetta sumar þar til frekari könnunar. Aðstæður þar voru mjög frumstæðar, aðeins rennandi vatn í eldhúsi og kofa læknisins. Samgöngur að sumarlagi milli staðanna var eingöngu með tveimur Dornier flugvélum útbúnum skíðum sem gátu lent á skriðjökli við Malmbjerget. Mitt megin hlutverk var að koma upp læknisstarfstöð þ.e. „heilsugæslu“ við Malmbjerget og dvelja þar sem oftast.

Danir höfðu fengið lið með sér American Metal Co. og stofnað Artik Mineselskap og áttu Danir 51%. Molybdenum er mikilvægur herslumálmur í stálblöndur. Grafin höfðu verið nokkur 2 km göng lárétt inn í fjallið í mismunandi hæð og síðan borað inn í fjallið í mismunandi stefnur og sýnishornum safnað. Þá þegar var talið að þetta væri annað til þriðja molybdenum ríkasta svæði í heiminum en stofnkostnaður yrði gífurlegur við námuvinnslu og flutningsleiðir til sjávar. Félagið Greenland Resources með höfuðstöðvar í Toronto Kanada hefur tryggt sér réttinn til námuvinnslunnar.

Ég hef síðan lítillega leyft mér að fylgjast með frekari málmleit og vinnslu. Ýmsir málmar hafa fundist í Grænlandi en vinnsla erfið samanber Malmbjerget en búist er við að finna meira þegar jöklar hopa. Meginvinnslusvæði núna í Grænlandi er Kvanefjeld svæðið um 8 km frá Narsaq þorpi og um 35 km frá Narsarsuag í Suðvestur-Grænlandi. Þar eru taldar vera næstu mestu birgðir af „rare earth metals“, þ.e. „sjaldgæfum málmum“ sem eru lykilmálmar í nýjustu rafeindatækni t.d. snjallsímum. Mestu birgðir þessa málma eru í Kína en þeir hafa sett ýmsar hömlur á útflutning þeirra. Einnig eru í fjallinu sjöttu mestu birgðir af uranium.

Námuréttindin á félagið Greenland Minerals and Energy. Höfuðstöðvar þess eru í Perth í Ástralíu og hverjir skyldu vera stærstu hluthafar, jú, Kínverjar, þeir munu þannig geta orðið ráðandi um framboð á þessum mikilvægu málmum.

Donald Trump vill banna sölu á kínversku Huawai tækninni á Vesturlöndum en Huawai situr að aðgangi að þessum lykilmálmum rafeindatækninnar. Donald Trump er því nokkuð seinn að fá áhuga á Grænlandi. Á hann kannski eftir að fara bónarveg til Kínverja til að afla þessara málma og jafnvel þessarar tækni? Það er því viðbúið að meira fjör eigi eftir að færast í leikinn.