Í lýðræðisríkjum er trúfrelsi grundvallarmannréttindi og er skilgreint í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem „frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni eða helgihaldi.“

Við Íslendingar öðluðumst fyrst trúfrelsi með stjórnarskránni 1874, sem okkur var færð af Kristjáni IX Danakonungi. Þar segir: „Landsmenn eiga rjett á að stofna fjelög til að þjóna guði með þeim hætti, sem bezt á við sannfæringu hvers eins, þó má ekki kenna eða fremja neitt, sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjar reglu. Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum rjettindum fyrir sakir trúarbragða sinna, nje heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri fjelagsskyldu.“

Trúfrelsi skipti höfuðmáli fyrir þær kirkjudeildir sem hér störfuðu undir lok 19. aldar við hlið Þjóðkirkjunnar en ekki síður við stofnun og uppbyggingu Fríkirkjunnar í Reykjavík.

Saga Fríkirkjunnar hefst á Reyðarfirði en flokkur kirkjufólks sagði sig úr lögum við Þjóðkirkjuna, á grundvelli nýrrar stjórnarskrár, og stofnaði Fríkirkju, kirkju sem var óháð bæði Þjóðkirkju og Danakonungi – kirkju sem var frjáls. Til liðs við þá kirkju gekk sr. Lárus Halldórsson prestur, sem jafnframt varð fyrsti prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík, og undir hans forystu eignaðist söfnuðurinn kirkju á Eskifirði.

Í sama frelsisanda er Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík stofnaður árið 1899 en einkunnarorð Lárusar voru „frjáls rannsókn og frjáls kirkja“. Frjáls rannsókn í merkingunni guðfræði sem er óhrædd við að spyrja spurninga og frjáls kirkja í merkingunni kirkja sem hefur lýðræðislega skipan og ekki skákar í skjóli valdhafa.

Með Fríkirkjunni í Reykjavík, og þeim systursöfnuðum sem á eftir komu, Óháða söfnuðinum og Fríkirkjunni í Hafnarfirði, sköpuðust raunverulegir valkostir í trúmálum, sem kröfðust þess ekki að skipt yrði um trú.

Þær hugsjónir sem leiddu til stofnunar Fríkirkjunnar í Reykjavík eru merkilegar í ljósi þess hvað þær endurspegla nútímalega hugsun. Hvatinn að stofnun Fríkirkjunnar var trúfrelsi, hugmyndir um jafnræði stétta, lýðræði og jafnrétti, og hugsjónin um frjálsa kirkju.

Ávextir Fríkirkjunnar í íslenskri menningu eru vel þekktir. Á langri sögu safnaðarins hefur Fríkirkjan látið að sér kveða í mannlífi og menningu.

Fríkirkjusöfnuðurinn var leiðandi afl í lýðræðisþróun og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga við upphaf 20. aldar;

Fríkirkjusöfnuðurinn var leiðandi í jafnréttisbaráttu Íslendinga, en sr. Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur var meðal alþingismanna sem beittu sér fyrir fjárráðum kvenna, kjörgengi kvenna og rétti kvenna til menntunar og embætta;

Fríkirkjusöfnuðurinn hefur í gegnum söguna fagnað vísindum og rannsóknum við iðkun guðfræði og má nefna þar nefna Harald Níelsson guðfræðiprófessor sem prédikaði hér við kirkjuna á árunum 1914-1928;

Fríkirkjusöfnuðurinn hefur tekið afgerandi afstöðu með hinsegin fólki og var fyrst trúfélaga á Íslandi til að viðurkenna hjónavígslu hinsegin fólks;

og Fríkirkjusöfnuðurinn hefur tekið skýra afstöðu með jafnri stöðu trúfélaga á Íslandi, fjölmenningu og trúfrelsi.

Mikilvægast af öllu er að Fríkirkjan í Reykjavík býður upp á raunverulegan valkost í trúmálum, valkost til handa þeim sem vilja tilheyra þeirri trúarhefð sem hefur mótað menningu okkar frá siðbót en kjósa að tilheyra söfnuði sem heldur á lofti framsýni, frjálslyndi, fjölmenningu og mannréttindum. Söfnuði sem hefur látlausa, trúverðuga uppbyggingu.

Höfundur er prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík.