Fyrsta útilistaverk í Reykjavík var styttan af íslensk-danska myndhöggvaranum Albert (Bertel) Thorvaldsen (1770-1844), höfðingleg gjöf Kaupmannahafnarborgar til Íslendinga árið 1874, þegar liðin var þúsöld frá upphafi byggðar í landinu. Var styttunni valinn staður á Austurvelli, en síðar í Hljómskálagarðinum við Tjörnina þar sem hún er nú.

Efni fyrstu verka Thorvaldsens sem vöktu verulega athygli á honum voru sótt í frásögur Biblíunnar. Má ætla að þessum sonarsyni Þorvaldar Gottskálkssonar prests á Miklabæ í Skagafirði (1712-1762) hafi látið vel að fást við slík viðfangsefni. Ekki síður þar sem Gottskálk faðir hans hafði, áður en hann settist að í Kaupmannahöfn, lagt gjörva hönd að byggingu nýrrar kirkju á Mikla­bæ með fleiri ættmennum.

Það var undir lok náms í Lista­akademíunni sem Thorvaldsen hlaut gullmedalíu skólans fyrir lágmyndina Pétur og Jóhannes lækna lama manninn við dyr helgidómsins. Þetta var æðsta viðurkenning akademíunnar og fylgdi henni styrkur til 3 ára dvalar í Róm. Einmitt þetta verk varð tilefni þess að fyrst birtist á prenti að hinn ungi myndlistarmaður væri gæddur snilligáfu í höggmyndalistinni. – Dvölin í Róm frá 1797 stóð í 41 ár og þar vann Thorvaldsen þau listaverk sem sköpuðu honum heimsfrægð.

Styttan af Bertel Thorvaldsen í Hljómskálagarði.
Mynd/Heiða Helgadóttir

Fyrsta verk Thorvaldsens sem almenningur í Danmörku leit augum var skírnarfontur unninn fyrir Brahetrolleborgarkirkju á Fjóni, en var til sýnis í Kaupmannahöfn árið 1815, áður en hann fór á áfangastað.

Það er skemmtileg tilviljun, að í hinu ættarlandi Thorvaldsens, Íslandi, var skírnarfontur einnig fyrsta verk hans sem almenningi gafst tækifæri til að skoða, það er kjörgripurinn sem hann gaf til Íslands „í ræktarskyni, 1827“ og er í Dómkirkjunni.

Verkið kom fyrst til landsins 1839 og hefur það umfram fyrri fontinn að umhverfis skírnarskálina er fagur blómakrans úthöggvinn í marmarann til mikillar prýði. Báðir þessir skírnarfontar eru skreyttir lágmyndum, efni sem sótt er í Biblíuna. Framhliðin sem snýr að söfnuðinum sýnir Jóhannes skíra Jesús.

Thorvaldsen átti margar útgáfur af Biblíunni og eru þær varðveittar í Thorvaldsenssafni. Það er því ekki vafi á að hann var vel að sér um efni Hinnar helgu bókar og myndefnið á skírnarfontunum var hans val en ekki unnið samkvæmt fyrirsögn, eins og verðlaunaverkið í Akademíunni um árið, eða pöntun.

Eitt þekktasta og dáðasta verk Thorvaldsens er Kristsmynd hans í Maríukirkjunni – Vor Frue Kirke – dómkirkju Kaupmannahafnar.

Gipsgerð styttunnar var sett upp við vígslu kirkjunnar 1829, og síðan úr fegursta marmara árið 1833. Styttan er 3,45 metrar á hæð, en það er ekki stærð verksins sem gerir styttuna svona áhrifaríka heldur öll gerð hennar – Kristur upprisinn, síðusárið og naglaförin á höndum og fótum. Í verkinu lætur Thorvaldsen Krist stíga hægri fæti fram til að taka á móti þér, Kristur drúpir aðeins höfði og lítur til þín með opinn faðminn og býður þig velkominn, mildur á svip.

Hughrif þeirra sem horfa á þessa styttu og skynja Krist eru ótvíræð. Nýleg tölvumynd Ólafs Péturssonar með grein Ólafs Egilssonar í Morgunblaðinu 16. apríl sl. sýnir vel hvernig Kristsstytta Thorvaldsens liti út aftan við altari Hallgrímskirkju í kór kirkjunnar. Kórinn með gluggum sínum eins og umfaðmar styttuna sem á góðum sólardegi yrði böðuð hlýjum sólargeislum.

Fallegar altaristöflur eiga í flestum kirkjum landsins ríkulegan þátt í að vekja þau hughrif sem fólk verður gripið þegar það gengur í guðshús til að hlýða á og íhuga kærleiksríkan boðskap Krists.

Hin tignarlega Kristsmynd Thorvaldsens er eins og sniðin fyrir Hallgrímskirkju á Skólavörðuhæð og myndi þar hafa þessi ákjósanlegu áhrif.

Það væri sannarlega gleðiefni, ef þessi einstaklega fagra Kristsmynd íslensk-danska listamannsins fengi stað í kirkjunni í framtíðinni.