Nettröll allra landa eru með böggum hildar yfir þeirri annars sjálfsögðu þróun að afþreyingarmenningin mjakast jafnt og þétt í jafnréttisátt.

Konur, fólk með dökka húð og jafnvel hinsegin rjúfa nú markvisst hin helgu vé hvítra, gagnkynhneigðra forréttindakarla sem hafa í krafti hefðar og úreltra gilda notið einkaréttar á því að vera aðalhetjur og virkustu gerendurnir í kvikmyndaskáldskap.

Þessa dagana þenja tvær nýjar sjónvarpsseríur, House of the Dragon og The Lord of the Rings: The Rings of Power, taugar nettröllkarlanna þannig að harmakveinin og fúkyrða­flaumurinn bergmálar í netheimum.

Sögusvið þáttanna eru, vel að merkja, fjarstæðukenndir fantasíuheimar kenndir annars vegar við Game of Thrones en hins vegar hina fornfrægu og yfirþyrmandi karllægu Hringadróttinssögu Tolkiens.

Aðstandendur beggja þátta fóru lóðbeint í gapastokk internetsins fyrir helgispöll á borð við að tefla fram svörtu fólki sem ekki aðeins skartar ljósum lokkum Daenerys Targaryen heldur eru líka auðug og voldug! Þá birtast þarna ákveðnar og sterkar konur sem eru eitthvað aðeins annað og meira en kynferðisleg viðföng áhrifakarlanna sem ríða um héruð með dólg og ruddaskap.

Nördarnir í Miðgarði þjappa sér því eðlilega saman yst á hægri kantinum, frávita af áhyggjum yfir þeirri goðgá að þar ganga lausar alls konar konur, hörundsdökkur álfur og persónur af ýmsum kynþáttum öðrum en þeim sem kenndur er við Kákasus.

Þykir þarna komin enn ein „serían þar sem kona sem að enginn tengir við er sett í aðalhlutverk“, eins og einn orðar það á Facebook. Rétt er að halda þó til haga að hrópandinn í fjölþjóðlegu eyðimörkinni hefur að sjálfsögðu „ekkert á móti konum“. Það er bara svo „miklu trúlegra að sjá kall berjast fyrir framtíð mannkyns“.

Óneitanlega sérkennilegt að eiga ekki í neinum vandræðum með að tengja við eldspúandi dreka, talandi tré, orka og hobbita en láta sér bregða svo við að sjá sterkar konur og hörundsdökka álfa að raunveruleikatengingarnar rofna.

Þetta var ekki svona ofboðslega flókið fyrr en leppalúðar, þjakaðir af brundfyllisgremju, fengu sína alþjóðlegu, rafrænu samráðsgátt þar sem hversdagslegt sjónvarpsgláp snýst úr skemmtun yfir í taugaveiklunartrylling sem umturnar þeim í steinrunnin, heimsk og leiðinleg tröll andspænis eðlilegri aðlögun fantasíunnar að raunveruleika 21. aldarinnar.