Núverandi forseti landsins, Guðni Th. Jóhannesson, hefur verið farsæll í embætti og þjóðin ber til hans mikið traust. Þegar líða tók á fyrsta kjörtímabil hans var ljóst að nánast ómögulegt yrði að sigra hann í forsetakosningum, enda hefur enginn þungavigtarframbjóðandi boðið sig fram gegn honum. Forsetakosningar verða þó. Þar veldur mestu að frambjóðandi þarf að safna sárafáum meðmælendum. Það er því æði létt verk að bjóða sig fram til forseta Íslands, sæki menn slíkt fast. Allnokkur dæmi eru um að einstaklingar sem hafa enga burði til að gegna hlutverkinu hafi vaðið í framboð og staðið uppi í lokin með lítið sem ekkert fylgi. Niðurstaða sem nær öllum var ljós allt frá byrjun, nema frambjóðandanum sem var illa haldinn af athyglissýki og ofmati á sjálfum sér. Slík staða blasir einnig við að þessu sinni.

Mótframbjóðandinn, Guðmundur Franklín Jónsson, ber sig vel og talar eins og möguleikar hans á sigri séu töluverðir. Það er afstaða út af fyrir sig og forvitnileg fyrir margra hluta sakir. Reyndar er ekki vitað til að margir hafi komið að máli við Guðmund Franklín og skorað á hann að bjóða sig fram, en hann hefur greinilega átt hvetjandi samtal við sjálfan sig áður en hann tók ákvörðun sína.

Guðmundur Franklín hóf kosningabaráttu sína á allóvenjulegan hátt, með því að hóta fjölmiðlafólki. Það gerðist í kjölfar þess að frambjóðandinn var spurður spurningar, sem honum mislíkaði, í sjónvarpsþætti á RÚV. Hann sagði á fésbókarsíðu sinni að hann ætti „stóra vopnageymslu af upplýsingum um allt þetta fólk“ – það er að segja starfsfólk RÚV – og sagðist ekki hika við að nota þær ef þörf krefði.

Ef Guðmundi Franklín er alvara með forsetaframboði sínu, sem honum virðist vera, þá var þessi leikur sá alversti í stöðunni. Forseti á ekki að hóta fjölmiðlafólki, líki honum ekki framganga þess. Sennilega hefur Guðmundur Franklín horft á of marga blaðamannafundi með Donald Trump og hugsanlega hrifist af þeim ósköpum sem sá alræmdi forseti lætur út úr sér og því hvernig hann ónotast út í fjölmiðlafólk. Aðdáun Guðmundar Franklíns á Trump hefur alla vega ekki farið fram hjá þeim sem heyrt hafa erlendar „fréttaskýringar“ hans á Útvarpi Sögu. Trumpistar Íslands, sem eru reyndar allt of margir, hafa ástæðu til að gleðjast, þeir hafa vísast fundið sinn frambjóðanda, og munu örugglega skunda á kjörstað.

Líklegt er að enginn sérstakur áhugi sé meðal þjóðarinnar á að ganga til forsetakosninga þetta árið og margir munu eflaust sitja heima. Aðrir fara á kjörstað vegna þess að þeim finnst það borgaraleg skylda sín að kjósa. Það er gott að nýta sér kosningaréttinn jafnvel þótt viðkomandi sjái ekki ástæðu til kosninga.

Kosningarnar nú gefa landsmönnum ágætt tækifæri til að þakka núverandi forseta fyrir gott starf og endurnýja traustið til hans. Þannig má helst finna góðan tilgang í komandi forsetakosningum.