Við sitjum í flugrútu, ég og Hófí, kærastan mín. Rútan er ágæt en ég vil ekki vera hérna. Ég vil vera í strætó. Ég tek helst strætó út um allt innan Reykjavíkur, hann er alls konar, sá lífsstíll, eins og vagninn sjálfur. Það var tekin ákvörðun um að almenningssamgöngur á Íslandi skyldu vera lélegar, sennilega var það gert til þess að enginn þyrfti að upplifa sig sem hluta af samfélagi. Íslendingar eru með ofnæmi fyrir samfélagskennd. Við viljum búa í einbýlishúsum með stórum görðum til þess að helluleggja. Við viljum keyra einkabíl í vinnuna og loka okkur af inni á skrifstofu og fá hvítvínið með pósti og draga fyrir og drekka og dreyma um verslunarmannahelgina þegar við losum um spennu og brjótum eitthvert drasl á tjaldsvæði norður í landi. Við viljum alla vega ekki taka strætó, hann er svo alls konar.
Öllu jöfnu er ég nokkuð frjáls ferða minna, það er sjaldgæft að barnlausir, sjálfstætt starfandi textasmiðir þurfi að mæta eitthvert. Yfirleitt bíður enginn eftir mér, yfirleitt skipta ferðir mínar litlu máli. Fæstar ferðir skipta raunar máli, eða það held ég. Þær eru farnar til þess að fylla upp í dagana, hafa eitthvað að hugsa um og baksa við. Einhvern veginn verðum við að lifa þessu lífi.
Það sem ég á við er að ég treysti strætó ekki, ég myndi ekki lána strætó pening eða biðja hann að passa köttinn minn, Lísu. Núna er eitthvað í húfi. Ég er að fara til Ítalíu, þar bíður mín heil þjóð fólks, samfélag þeirra jafnvel. Þar bíða mín kolvetni, kaffi og traustar almenningssamgöngur. En ég treysti ekki strætó fyrir flugi og þess vegna sit ég í rútu þvert á vilja minn.