Pólitík snýst um traust og stefnumið. Í sveitarstjórnarkosningunum er ekki eingöngu valið á milli flokka, heldur einnig frambjóðendur sem bjóða sig fram til forystu og starfa fyrir bæjarfélagið. Jafnaðarmenn eru í stórsókn í Hafnarfirði. Ég skynja að bæjarbúar vilja vera í sigurliði Hafnfirðinga – okkar jafnaðarmanna? Við erum tilbúin í verkin.

Í Hafnarfirði eru valkostir á morgun afskaplega skýrir: Vilja Hafnfirðingar breytingar til bóta, festu, öryggi og framsýni – og nýjan meirihluta í Hafnarfirði undir styrkri stjórn og forystu jafnaðarmanna? Eða vilja þeir áfram lúinn og hikandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins, eftir átta ára stjórn flokksins?

Eins er spurt um það hvaða einstaklingi þeir treysta betur fyrir velferð og félagslegum áherslum og kröftugri uppbyggingu. Er það oddviti Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands í Hafnarfirði, eða oddviti Sjálfstæðisflokksins? Er það samhent liðsveit jafnaðarmanna í Firðinum, þar sem bjartsýni og tilhlökkun um að taka til hendi er efst á blaði? Jafnarmenn standa við orð sín og efna loforð. Eða er vilji til að framlengja valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Firðinum? Það sem sagt er eitt í dag og annað á morgun eftir hentugleika.

Ég hvet til þess að Hafnfirðingar kjósi með kalt höfuð og heitt hjarta. Og að þeir kjósi einfaldlega til forystu fyrir Hafnarfjörð, flokka og fólk sem þeir treysta best. Við jafnaðarmenn komum til dyranna eins og við erum klæddir. Engir sérhagsmunir – bara hagsmunir almennings. Þar verða allir með – enginn út undan.

Jafnaðarmenn eru tilbúnir í þjónustustörfin fyrir bæjarbúa. Samfylkingin er í stórsókn. Við viljum láta verkin tala. Við viljum náið og virkt samráð við alla bæjarbúa. Við vinnum fyrir fólk og með fólki. Möguleikar okkar Hafnfirðinga í yndislegum bæ eru óþrjótandi. Gerum það saman. XS að sjálfsögðu.