Ekki er ofsögum sagt að undanfarið rúmt ár hafi reynst flestum þjóðum raun. Ofan á dagleg viðfangsefni hafa stjórnvöld um heiminn glímt við ógn heimsfaraldurs með ófyrirséðum afleiðingum.

Við hér uppi á Íslandi höfum ekki farið varhluta af þessu. Ofan á náttúruvá af völdum skriðufalla, veðurofsa, jarðhræringa og síðast eldsumbrota, hefur faraldurinn sett líf allra úr skorðum.

Reynt hefur á þolgæði þeirra sem ábyrgð bera á sóttvörnum, ekki síður en þeirra sem þeim þurfa að hlíta. Ekki leynir sér að þreyta er komin í mannskapinn.

Það er þó ánægjulegt að fréttir eru teknar að berast af því að farið sé að birta til. Í vikunni voru þúsundir bólusettar og það heldur áfram og hægt og bítandi nálgast markmiðið um hjarðónæmi.

Í Fréttablaðinu í vikunni var sagt frá því að von væri á 150 þúsund bólusettum farþegum með skemmtiferðaskipum til landsins í sumar, auk þeirra sem ráðgert er að fljúga með hingað og sigla umhverfis landið.

Þá var einnig sagt frá því í sama blaði að eldgosið á Reykjanesskaganum hafi orðið til þess að áhugi erlendra ferðamanna hafi aukist á landinu. „Við vonum að gosið í Geldingadölum hafi svipuð áhrif þegar við komum út úr heimsfaraldrinum og gosið í Eyjafjallajökli árið 2010,“ segir Dagný Björg Stefánsdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar Hidden Iceland, í samtali við blaðið. Hvort tveggja veit á gott, þó ýmislegt þurfi til að koma svo þetta gangi eftir.

Í baráttunni gegn faraldrinum hafa stjórnvöld lagt áherslu á að ekki náist fullnægjandi árangur nema allir standi saman sem einn maður. Það hefur í langflestu tilliti tekist. Ekki verður þó vikist undan því að nefna framgöngu heilbrigðisráðherra við reglugerðarsetningu varðandi skyldusóttkví á hóteli. Nú liggur fyrir fullnaðarniðurstaða um að þær reglur áttu sér ekki nægjanlega stoð í sóttvarnalögum svo sem áður hefur verið á bent á þessum vettvangi.

Stjórnsýslan býr við þann munað að geta dregið að alla þá þekkingu og reynslu sem hugsast getur þegar samin eru fyrirmæli sem lagt er fyrir fólk að fylgja. Það er því óskiljanlegt hvers vegna ekki tókst betur til. Það er enginn undanþeginn því að gera mistök. Þau eru misalvarleg og hafa misjafnar afleiðingar. Burtséð frá hversu mikilvægt það er að geta beitt alla skyldusóttkví á hóteli, þótt þeir hefðu aðstæður til að verja sóttkvínni heima hjá sér, þá varð að gera þá kröfu til höfunda reglugerðarinnar að þeir fengju viðeigandi ráðgjöf við skrifin. Sú virðist ekki raunin.

Afleiðing þessa er að mistökin grafa undan samstöðunni, þau grafa undan tiltrú fólks sem leggur mikið á sig til að fara að sóttvarnafyrirmælum. Sóttvarnalæknir setur ekki reglugerðir, hann byggir tillögur sínar til ráðherrans á sínu læknisfræðilega mati. Reglugerðin er verkefni heilbrigðisráðherrans.

Með þessu ráðslagi hefur heilbrigðisráðherrann veikt nauðsynlegt traust fólks til sín á viðkvæmum tímapunkti í baráttunni. Við því megum við síst.

Við því þarf hann að bregðast.