Í allri um­ræðunni um þá auknu hörku sem blasir við undir­heimunum hér á landi er mikil­vægt að hafa í huga að lög­reglu­mennirnir sem sendir eru á vett­vang hverju sinni eru mann­eskjur sem eru að rækja erfiðar skyldur sínar, oft og tíðum við ó­bæri­legar að­stæður. Og ekki þarf að efast um það nokkru sinni að oftar en ekki taka laganna verðir að sér verk­efni sem kunna að ganga gegn gildum þeirra sjálfra.

Jafn­vel enn mikil­vægara er að hafa í huga, hverju sinni sem stórir og smáir hópar fólks fara að tjá sig um lög­reglu­að­gerðir, að þessar mann­eskjur sem eiga og þurfa að fram­fylgja lögum og reglum í landinu, eru bara venju­legir lands­menn sem eiga sér fjöl­skyldur, börn og maka – og þrá það heitast að komast klakk­laust heim af vaktinni sinni.

Og það er í þessu ljósi sem ræða þarf af yfir­vegun hvort og hvernig eigi að efla starfs­um­hverfi lög­reglunnar svo hún geti sinnt störfum sínum af sem mestu öryggi, jafnt fyrir borgarana í landi og laganna verði – og notið á­fram trausts.

Lög­reglu­menn eru vel menntaðir fag­menn á sínu sviði og engir nema þeir einir þekkja hvernig dekkstu hliðar sam­fé­lagsins geta birst svo til ó­for­varandis. Þess vegna er eðli­legt að meta óskir þeirra sjálfra um aukinn vopna­búnað, svo sem raf byssur, og frekari heimildir til að ráða við þá ógn sem blasir við þeim, jafnt að nóttu sem degi.

Í þessum efnum snýr spurningin ekki síst að því hvort lög­reglu­menn hér á landi eigi að hafa að­gang að sömu tækjum og tólum og kollegar þeirra á öðrum Norður­löndum hafa yfir að ráða – og ef ekki, er lík­lega nauð­syn­legt að rök­styðja það af hverju þeir ís­lensku eigi að vera eftir­bátar starfs­syst­kina sinna í þeim löndum sem við viljum helst og mest bera okkur saman við.

Og svo er hún líka æði á­geng enn ein spurningin frá síðustu og verstu tímum; verður það svo að lög­reglan haldi ekki í við bófana af því þeim síðar­nefndu er það í sjálfs­vald sett að bæta að­ferðir sínar á meðan lög­reglunni er meinað að gera það?

Þessi um­ræða þarf að fara fram af stillingu, án upp­hrópana og þaðan af síður al­hæfinga, en lög­reglu­menn þessa lands eiga það ein­fald­lega skilið. Slíkt er starfs­um­hverfi þeirra.