Nýverið týndust ferðatöskur farþega heillar flugvélar Icelandair, einhvers staðar á erlendum flugvelli. Myndir af þeim sama flugvelli sýna mikil töskufjöll sem væntanlega innihalda sundföt, sandala og sumarkjóla ævintýraþyrstra ferðalanga.

Verandi á leið í frí hefur ljósmyndin af töskufjallinu ásótt mig, ég segi ekki daga og nætur en þó verið ofarlega í huga. Svo mikið reyndar að ég hef tekið þá ákvörðun, eftir ítarlega mismunargreiningu, að fara í þriggja vikna frí til útlanda með handfarangur. Ekkert nema handfarangur.

Yfir þessu er maðurinn minn í hláturskasti og bendir mér reglulega á að hann verði með stóra ferðatösku (sem líklega endar í töskufjallinu), ef ég vilji setja eitthvað í hana. Sem ég tel vera óþarfa. Enda hef ég ákveðið að losa mig við allan óþarfa farangur í þessari ferð. Það á við um öll auka skópörin, enda hefur greining mín sýnt að ég þarf bara eitt par af strigaskóm og eitt par af sandölum. Þá er hæpið að ég þurfi að taka mína eigin hárþurrku með í ferðina. Já, það hefur komið fyrir í vinnuferðum. Enda ekki á vísan að róa þegar kemur að gæðum hárþurrka á hótelherbergjum. Þá mun ég sleppa straujárninu, enda sólarfrí en ekki vinnuferð.

Farangurinn sem við dröslumst með í gegnum fríin og lífið er alls konar – og megnið af honum er óþarfi. Sumarfríið er rétti tíminn til að losa okkur við allt draslið sem þyngir okkur (og flugvélarnar). Svo komum við endurnærð til baka, búin að hreinsa til á harða diski höfuðsins. Og förum lóðbeint í að þrífa geymsluna.