Síðasta árið hafa skóla­stjórn­endur sem glíma við á­hrif heims­far­aldurs ekki átt sjö dagana sæla. Á­lagið hefur verið gríðar­legt en sumum þessara stjórn­enda er þó ekki að­eins ætlað það verk­efni að reyna að forða nem­endum sínum frá smiti og al­var­legum and­legum skaða. Þeim er einnig fært það verk­efni á silfur­fati að leita leiða til að forða rekstri sínum frá gjald­þroti.

Það á að minnsta kosti ekki síst við um Söng­skóla Sigurðar Demetz (SSD). Í haust gerðist það loksins að tón­listar­skóla­kennarar fengu notið hinna svo­kölluðu lífs­kjara­samninga í launa­umslögum sínum. Þeir höfðu ekki verið öfunds­verðir af erfiðum vor­mánuðum og lík­legast á­lyktuðu kennararnir að nú væru stjórn­völd að verð­launa þá fyrir allt erfiðið sem á undan var gengið. Undir­ritaður fagnaði sannar­lega kjara­bótum kennara sinna sem skóla­stjóri einka­rekins söng­skóla í „Tón­listar­borginni Reykja­vík“.

En böggull fylgir skamm­rifi því að tón­listar­nám á efri stigum í Reykja­vík er að­eins fjár­magnað af ríki og fram­lög þess duga sjaldnast fyrir raun­kostnaði kennslunnar. Önnur sveitar­fé­lög greiða sínum tón­listar­skólum mis­mun þegar launa­hækkanir verða eins og nú. Varð 11 prósenta hækkun á heildar­kostnaði kennslunnar vegna lífs­kjara­samninganna. Þetta er há upp­hæð fyrir skóla sem ekki er rekinn með hagnaðar­von, en þær sér­stöku reglur gilda um söng­nám að 2/3 hlutar þess eru fjár­magnaðir með áður­nefndri fjár­veitingu ríkisins, en ekki nema þriðjungur af hljóð­færa­námi. Van­fjár­mögnun kennslunnar er því hlut­falls­lega meira á­fall fyrir söng­skóla. Hefur það því miður haft af­gerandi á­hrif á rekstur SSD í rúman ára­tug.

Við þetta bætist nú að heims­far­aldurinn hefur undan­farið ár haft mikil á­hrif á próf­töku grunn­stigs­nem­enda. Frestun prófa í vor og aftur í haust veldur því að nem­endur hafa ekki færst upp í efri stig og hefur það haft ýmsan auka­kostnað í för með sér. Í ein­stak­lings­miðuðu tón­listar­námi eykur fjölgun nem­enda kostnað til muna og þegar hann bætist við á­hrifin af fjár­magns­skorti vegna áður­nefndra lífs­kjara­samninga verður staðan graf­alvar­leg. Reynt hefur verið að sækja um auka­fjár­heimildir en án árangurs.

Þykir söng­kennurunum, sem flestir starfa einnig sem tón­listar­menn, kveðjur „Tón­listar­borgarinnar Reykja­víkur“ og mennta­mála­ráðu­neytisins fremur kaldar, enda virðist ekkert nema svart­nætti vera fram undan. Tón­leika­hald hefur verið í frosti í heilt ár og söngvarar eiga í fá önnur störf að leita á sínu sviði en kennslu. Þótt takist að halda starfinu gangandi með ein­hverjum ráðum til hausts er út­litið ekki bjart eftir það.

Söng­nem­endum hefur fækkað um 120 á síðasta ára­tug í „Tón­listar­borginni Reykja­vík“ sem er fyrst og fremst kerfis­lægum vanda að kenna því að skólarnir tækju með á­nægju við fleiri nem­endum. Fjöldi nem­enda sækir um ár­lega í SSD en er vísað frá þar sem kennslu­magn skortir. Stjórn­mála­menn svara mér gjarnan því að þeir vilji allt fyrir mig gera til að bæta þessa stöðu. Samt mætti halda að nú sam­einist ríki og borg um frekari fækkun söng­nem­enda.

Á sama tíma og SSD berst í bökkum fagna kennarar hans því að þrír fyrr­verandi nem­endur skólans eru að undir­rita nýja samninga við evrópsk óperu­hús. Stór hópur nem­enda er þegar við störf er­lendis, í fram­halds­námi í er­lendum há­skólum eða Lista­há­skóla Ís­lands. Auk þess hreppti Álf­heiður Erla Guð­munds­dóttir verð­launin „söngvari ársins“ við af­hendingu á Ís­lensku tón­listar­verð­laununum um síðustu helgi, en hún fór í gegnum allt sitt söng­nám, frá ung­linga­deild til fram­halds­stigs­prófs, í SSD. Fram­lag skólans til menningar­lífsins er ekki sem verst.

Söng­elskir borgar­búar eru sjálf­sagt undrandi á því að stjórn­endur „Tón­listar­borgarinnar Reykja­víkur“ og mennta­mála­ráð­herra, sem einnig er þing­maður höfuð­borgarinnar, skuli ekki enn hafa fundið lausn á vanda sem hefur verið við­varandi í meira en ára­tug. Undrun þeirra hlýtur að aukast til muna þegar í ljós kemur að nú er vandi þessa Reykja­víkur­skóla meiri en nokkru sinni fyrr. Söngvarar hljóta að spyrja sig hvort þar séu á ferðinni sér­stök tón­listar­verð­laun reyk­vískra vald­hafa til söngvara og söng­nem­enda „Tón­listar­höfuð­borgarinnar“; kjós­enda í títt nefndri Reykja­vík.