Mér þykir vænt um Ríkisútvarpið og ég ann tónlist. Rás 1 hefur veitt mér mikla ánægju um langt árabil og á stóran þátt í tónlistaruppeldi mínu.

Það sem truflar mig hins vegar talsvert er notkun tónlistar við kynningu á ýmsum þáttum, aðallega í útvarpi og einnig að hluta til í sjónvarpi. Í annars ágætu morgunútvarpi Rásar 1 eru stjórnendur þáttarins einkum duglegir að skjóta tónlistarstefjum inn í flutninginn og jafnvel á meðan viðtöl eða upplestur fara fram. Þessi kynningartónlist er oft mjög langdregin og alltaf er spiluð sama tónlist viku eftir viku, jafnvel misseri eftir misseri. Það er eins og að tónlistarbrotin séu notuð til þess að fylla upp í tíma og þá ræðst lengd þeirra af fjölda og fyrirferð auglýsinga hverju sinni. Í öllu þessu kraðaki er svo hið talaða orð látið víkja til hliðar. Þarna er verið að þrengja að því og verður það til þess að töfrar tungumálsins í þessum miðli ná ekki að njóta sín til fulls. Og svo má spyrja hvers vegna ekki megi notast við þögnina af og til. Þögnin getur stundum verið heillandi og róandi.

Svo má nefna hallærislega kynningu á sjónvarpsfréttum. Hún er alltof löng, illa hönnuð og oft er skondið að sjá þulinn örvæntingarfullan fikta við lyklaborðið fyrir framan sig rétt áður en lestur frétta hefst.

Þjóð sem telur sig vera bókmenntaþjóð og sem vill varðveita tungumálið og bókmenntaarfinn hlýtur að sjá til þess að flutningur orðsins fái að njóta sín í útvarpi allra landsmanna.