Í vikunni varð íslenska menntakerfið enn og aftur uppvíst að því að klúðra málum svo hundruð unglinga sitja eftir pirruð og sár. Hin fullkomlega óþörfu samræmdu próf runnu út í sandinn sem fyrr. Forritarar bjástra yfir hugbúnaði. Gera skal aðra tilraun á mánudaginn. Tölvukerfið bilaði, var sagt. Ég vil orða það öðruvísi. Ég vil meina að menntakerfið hafi bilað, enn einu sinni. Þráhyggja þess snýst um að ungt fólk á Íslandi skuli samræmt. Um árabil hafa embættismenn bruggað til þess leiðir. Ungu fólki skal troðið í samræmd línurit og skífurit og sett í hólf eftir kunnáttu þess í íslensku, ensku og stærðfræði, eins og það séu grunngildi mannlífsins. Allt eins mætti, að mínu viti, prófa í pönnukökubakstri, spretthlaupi og Sudoku og pikka þær niðurstöðutölur í Excel og skrifa um það skýrslur. Gildir einu. Það sem er ömurlegt í þessu er nálgunin í sjálfu sér. Samræmdu prófin eru flaggskip þeirrar nálgunar og hún er í grundvallaratriðum þessi: Skólakerfið vill að ungt fólk sé eins. Ungt fólk á heima í boxi. Aðeins þannig er hægt að skoða það. Mæla það. Þetta er bara gert við ungt fólk, ekki fullorðið. Hugsunin er svo glötuð að ár eftir ár neita tölvurnar að framkvæma hana. Þetta er fáheyrt í veröldinni, en gerist ítrekað á Íslandi: Tölvukerfi mótmælir menntakerfi. Kassalagaðasta kerfi í heimi neitar að framkvæma samræmd próf.

Nei, heyrðu nú, kann einhver að segja. Hefur ekki verið lögð á það gríðarleg áhersla að breyta menntakerfinu á Íslandi þannig að hver og einn nemandi skuli njóta sín og styrkleika sinna? Er ekki búið að gera byltingu í einstaklingsmiðuðu námi? Stutta svarið við þessu, að mínu viti, er einfaldlega nei. Langa svarið er hins vegar mun bitastæðara. Ég sé ekki betur en að samræming ungs fólks í staðlaða hæfni sé leiðarstef í íslensku skólakerfi frá byrjun grunnskóla til loka framhaldsskóla. Samræmdu prófin eru dæmi um þetta, en framhaldsskólinn ekki síður. Þegar aðalnámskrá framhaldsskóla er skoðuð og einungis upphaf hennar lesið, þá kann að virðast að áherslan sé öll á það að styrkja einstaklingana í því sem þeir gera best, að nálgast þá út frá eigin styrkleikum. Þessa hugsun má greina í inngangskafla, enda er fyrir þessari nálgun ríkur samfélagslegur vilji. Ég held að flestir vilji fjölbreytt samfélag þar sem fólk fær að njóta sín og sækja sér menntun á grunni sinna hæfileika.

En svo er lesið áfram. Þegar grannt er skoðað reynist sveigjanleiki kerfisins lítill sem enginn. Jú, nám skal vera einstaklingsmiðað. Allir eiga að njóta sín. Hins vegar verða samt auðvitað allir að læra íslensku, ensku og stærðfræði. Annað gengur vitaskuld ekki, segir kerfið. Og svo verða selvfölgelig allir að læra dönsku, fyrir okkar kæru nordiske venner. Og auðvitað þriðja tungumálið, sem er þá yfirleitt þýska eða franska. Ekki förum við að hleypa fólki í gegn án þess að kunna að beygja sterkar þýskar sagnir? Og allir skulu læra íþróttir. Og mannkynssögu. Og smá félagsfræði. Og náttúrufræði. Sem sagt, eftir því sem námskráin er lesin lengra hverfur sveigjanleikinn að mestu. Hann er skilgreindur burt með upptalningu á alls konar kjarnafögum, sem einhver er búinn að ákveða einhvers staðar að öll íslensk ungmenni þurfi að læra, vilji þau stúdentspróf, alveg burtséð frá því hvaða hæfileika það hefur. Stjórnsemin lifir.

Tökum dæmi af ungri manneskju sem hefur áhuga á hönnun. Stórum hluta tilveru sinnar í framhaldsskóla mun hún verja í það að læra orðf lokkagreiningar, styrjaldasögu, bókmenntahugtök og sagnbeygingar. Svo klórar fólk sér í kollinum yfir því að brottfall úr framhaldsskólum sé eitt það mesta í heimi. Getur verið að það sé tengt því að stór hópur ungmenna ákveður við upphaf fullorðinsáranna að segja eins og tölvukerfið í samræmdu, hingað og ekki lengra? Sér það kannski engan tilgang í því að það sé látið læra hluti, jafnvel eldsnemma á morgnana, sem það hefur lítinn sem engan áhuga á? Ræða má tiltekinn fíl í herberginu til að undirstrika fáránleikann sem einkennir kerfið allt: Danska. Af hverju þurfa íslensk ungmenni að læra dönsku? Til hvers er verðmætum tíma varið í dönskunám? Ef þetta er milliríkjamál, einhvers konar spurning um að Íslendingar séu kurteisir við Dani, þá finnst mér löngu tímabært að við breytum okkar utanríkispólitík: Við lærum ekki dönsku nema Danir læri íslensku.

Menntakerfið, hvernig skólarnir eru byggðir upp, hvað er kennt og hvernig kunnátta og hæfni ungs fólks er styrkt, er algjört grundvallaratriði í hverju samfélagi. Tölvurnar hafa reynt að senda okkur skilaboð við samræmd próf á nánast hverju ári: Við erum á rangri leið. Tölvurnar segja nei.