Ekki verður séð að mikið vit sé í því að telja Covid-smit af sama ákafa og gert var áður en þjóðin var að stórum hluta bólusett. Með því að einblína á smittölur er einfaldlega verið að senda þau skilaboð til fólks að bólusetningar skipti sáralitlu máli – sem er vitanlega alls ekki rétt.

Ef þefa á uppi hvert einasta Covid-smit þá mun sá eltingaleikur standa æði lengi og skila engu nema viðvarandi höftum. Sóttvarnayfirvöld virðast tilbúin í þann leik, eru jafnvel frekar spennt fyrir honum. Stór hluti almennings er það alls ekki. Það er löngu tímabært að breyta um áherslur.

Hér á landi streymdi fólk í bólusetningar og flestir eru tvíbólusettir, sumir hafa farið þrisvar. Lítið bólar hins vegar á frelsinu sem fólki var lofað, léti það sprauta sig. Enn eru ströng höft við lýði og lítið vit virðist í þeim flestum. Endalaust er verið að telja fólki trú um að hættur leynist svo að segja alls staðar. Ótrúlega margir gleypa við þeim áróðri.

Rétt er að víkja að menningunni – en ekki hafa borist fréttir af því að fólk sé að smitast í einhverjum mæli á menningarviðburðum. Samt er það svo að það kostar mikla fyrirhöfn að komast á slíka viðburði. Þar eru fjöldatakmarkanir og grímuskylda, hraðprófs er krafist og fólk má ekki blanda geði.

Ekki nema von að margir forðist að leggja þetta á sig og kjósi að sitja heima. Menningarviðburðir eiga að vera vítamínsprauta fyrir sálarlífið, ekki vera íþyngjandi. Á hverjum degi er menningarviðburðum frestað eða hætt við þá vegna ýmiss konar takmarkana. Menningarlíf á Íslandi er að verða fyrir miklu höggi vegna hafta. Eigum við virkilega að taka því með brosi á vör?

Með höftum er verið að tala niður árangur bólusetninga. Á sama tíma er farið í bólusetningarátak. Það er ekki einkennilegt að einhverjir skuli spyrja: Til hvers að fara í bólusetningu ef það skilar mér engu? Aðrir heimta svo að óbólusettir verði gerðir að annars flokks borgurum því bólusettum stafi hætta af þeim.

Þjóðfélag sem skiptir þegnum sínum í hópana „við“ og „hinir“ er komið á skelfilega braut.

Það þarf að greina vandann mun betur gert hefur verið. Við getum ekki endalaust búið við höft vegna smita sem eru ekki í miklum mæli að valda alvarlegum veikindum. Mannréttindi einstaklinga eiga svo ekki að miðast við stöðu Landspítans hverju sinni.

Úrbóta er örugglega þörf á Landspítalanum, en það á ekki að setja almenning í fjötra þess vegna.