Í vikunni var skýrt frá því að ávinningur Íslendinga af orkuskiptum gæti numið allt að 1.400 milljörðum króna á næstu áratugum. Þannig túlka fjölmiðlar skýrslu verkfræðistofunnar Eflu, sem kynnt var á fundi í Hörpu (Efnahagsleg áhrif orkuskipta, helstu niðurstöður greiningar). Talan 1.400 milljarðar er fengin úr svokallaðri margfeldisathugun. Útgjöld til orkuskipta eru margfölduð með stuðli af stærðargráðunni 2-2,5, til þess að ná til afleiddra og óbeinna áhrifa. Reyndar er rætt um verðmætasköpun en ekki ábata í þessu sambandi í skýrslunni. Ábati er ekki mældur í margfeldisathugunum.

Þessa stundina er alveg óljóst hver ábati verður af orkuskiptum í fiskveiðum, samgöngum og flutningum, enda er tæknin sem nýtt verður við þau að miklu leyti óþekkt. Þess vegna er ótímabært að líkja ábatanum við það þegar hitaveita var lögð í borgina. Í margfeldisathugunum er lagt mat á fyrirferð starfsemi í hagkerfinu. Stundum er sagt að þær sýni áhrif á landsframleiðslu, en það er ekki alveg rétt. Um það segir í skýrslu Hagfræðistofnunar frá 2005 (nr. C05:04), sem vitnað er til í skýrslu Eflu:

„Margfaldarar úr aðfanga-afurðagreiningu eru oft mistúlkaðir í þá veru að þeir gefi til kynna hversu mikið framleiðsla eða atvinna drægist saman ef atvinnugreinin væri ekki til staðar. Augljóslega er það ekki staðreyndin. Ef atvinnugreinin væri ekki til staðar myndi hagkerfið þróast í aðra átt með annarri nýtingu framleiðsluþátta.“

Vegna vandkvæða við að túlka margfeldisathuganir hefur Hagfræðistofnun á seinni árum boðið fram athuganir úr jafnvægislíkani, þar sem greind eru áhrif þess á landsframleiðslu í bráð og lengd að tiltekin starfsemi hverfi úr hagkerfinu. Þessi aðferð sýnir líklega raunsannari mynd en margfeldisathuganir. En því miður vekur hún ekki jafnmikla hrifningu, því að oftast fást ekki jafnháar tölur þegar henni er beitt.