Tíundi septem­ber er al­þjóð­legur for­varnar­dagur sjálfs­víga og þá eru gjarnan skipu­lagðir alls kyns við­burðir til að opna um­ræðuna um sjálfs­skaða og sjálfs­víg, auk þess sem fjöldi fal­legra minningar­stunda á sér stað. Við höfum sjálfar í­hugað og reynt að taka eigið líf. Við erum líka hluti af hópi Hugar­afls­fólks sem hefur per­sónu­lega reynslu af mál­efninu og erum að gefa út bókina Boða­föll, nýjar nálganir í sjálfs­vígs­for­vörnum. Við höfum sterka skoðun og reynslu af því hvernig mis­munandi um­ræða getur reynst skað­leg og önnur hjálp­leg.

Það skiptir máli hvaða orð við notum. Þau endur­spegla þá hug­mynda­fræði sem við að­hyllumst og hvaða fram­tíðar­mögu­leika við eigum ef við höfum á annað borð ein­hvern tímann upp­lifað öng­stræti. Þegar við tölum um sjálfs­skaða, sjálfs­vígs­hugsanir og -til­raunir þá hættir fólki til að sjúk­dómsvæða skiljan­lega angist og nota gildis­hlaðin orð. Sá orða­forði kemur oft úr læknis­fræði­lega líkaninu. Sjálfs­skaði, sjálfs­vígs­hugsanir og -til­raunir eru ekki sjúk­dóms­ein­kenni. Við erum gagn­rýnar á rétt­mæti geð­sjúk­dóma­greininga og teljum þær ekki sjálf­krafa hjálp­legar. Þær ná að sama skapi tak­markað utan um upp­lifanir okkar og sýna ekki heildar­mynd vandans. Einnig ber að nefna að fjöldi fólks hefur upp­lifað þessa angist án þess að hafa nokkurn tímann fengið geð­sjúk­dóma­stimpil.

Ekkert okkar „fremur sjálfs­morð“ eða „fremur sjálfs­víg“ því við erum ekki að tala um glæp og við viljum ekki ala frekar á for­dómum í þessum mála­flokki. Við tölum um það að taka eigið líf, velja að kveðja þennan heim, stytta sér aldur eða sjá sér engar aðrar leiðir færar til að lifa á­fram. Við viljum opna um­ræðuna um þessar skiljan­legu til­finningar og upp­ræta skömmina sem við­helst í ó­vönduðu orða­vali. Við höfum líka tekið eftir á­kveðinni orð­ræðu hjá þeim sem vilja opna um­ræðu um sjálfs­víg. Þar er endur­tekið talað um von og mynda­valið sýnir gjarnan logandi spritt­kerti. Við vitum af eigin reynslu að þetta er rétt og lífið getur orðið betra en á sama tíma ná þessi skila­boð engan veginn til mark­hópsins þegar við erum í öng­stræti. Þetta virkar innan­tómt og það þarf að mæta hverju og einu okkar þar sem við erum stödd hverju sinni. Það er ekki nóg að segja að við þurfum að tala um hlutina eða að það sé von. Það þarf að leggja spilin á borðið og ræða rætur vandans og gefa raun­veru­leg tól til að rækta von í staðinn fyrir að nefna hana ein­göngu á orð, líkt og hún spretti fram úr tóma­rúmi.

Ekkert okkar „fremur sjálfs­morð“ eða „fremur sjálfs­víg“ því við erum ekki að tala um glæp og við viljum ekki ala frekar á for­dómum í þessum mála­flokki.

Hvað um það þegar fólk deyr vegna sjálfs­vígs? Við höfum orðið varar við ó­hjálp­legt orða­lag líkt og „Hann tapaði fyrir sjúk­dómnum“, „Hún var ekki rétt (sjúk­dóms)greind“, „Hán var með falinn sjúk­dóm“, „Við gerðum allt; þau voru hjá geð­lækni, fengu geð­lyf eða voru hjá sál­fræðingi“. Við sem sam­fé­lag vorum að tapa ein­stak­lingi, það var ekki ein­stak­lingur sem tapaði bar­áttunni. Við skiljum að það leynist ein­hver sálu­hjálp í því að tengja sjálfs­vígið við yfir­náttúru­leg öfl, veikindi eða geð­sjúk­dóm, líkt og þetta væri bíl­slys eða náttúru­ham­farir. Það léttir að­eins af á­byrgðinni og van­líðaninni sem eftir­lif­endur finna fyrir og miðlar því að þetta hafi í raun verið ó­við­ráðan­legt. Stað­reyndin er sú að að­stand­endur gerðu allt sem þau gátu miðað við upp­lýsingarnar sem þau höfðu um eðli sjálfs­skaða og sjálfs­víga. Að­stand­endur og sam­fé­lagið hafa hins vegar í raun ekki verið með hjálp­legustu bjarg­ráðin né hug­mynda­fræðina til að takast á við undir­liggjandi or­sök vandans sem birtist fyrst og fremst sem ein­stak­lings­þjáning. Fólk grípur þess vegna til sjúk­dóms­greininga því það er að reyna að ein­falda ein­hvern veru­leika sem er flóknari en svo. Við viljum fjar­lægja þessa sjúk­dóms­tengingu en veita sálu­hjálpina og stuðninginn. Við getum því miður ekki bjargað öllum og í flestum til­vikum hefur fólk þjáðst lengi í þögn áður en þau yfir­gefa þennan heim. Í raun getum við ekki bjargað neinum nema okkur sjálfum. Það sem eftir­lif­endur geta gert er að miðla nýrri sýn, opna um­ræðuna og vinna að auknum jöfnuði í sam­fé­laginu svo að­stæður fólks batni og færri neyðist til að ganga í gegnum svart­nætti.

Við viljum heyra frá fólki sem hefur í­hugað eða reynt að taka eigið líf.

Við viljum heyra frá fólki sem hefur í­hugað eða reynt að taka eigið líf. Al­þjóð­legur for­varnar­dagur sjálfs­víga ætti að miðla per­sónu­legum reynslu- og bata­sögum fólks sem hefur verið á þessum stað. Það vantar sár­lega um­ræðu um bata og það sem reynist okkur hjálp­legt. Þær eru ekki á­berandi í um­ræðunni í dag. Það heyrast nær ein­göngu sögur frá að­stand­endum sem hafa misst ást­vin eða við­töl við fag­fólk sem telur mikil­vægt að ræða efnið út frá þeim sjónar­hóli að þetta sé hræði­legur fjöl­skyldu­harm­leikur eða fylgi­fiskur svo­kallaðra geð­sjúk­dóma. Það eru haldnar fal­legar minningar­stundir og söfnunar­á­tök um þau sem hafa farið og restin af um­ræðunni varðar þau sem eru að berjast fyrir eigin lífi í van­líðan sem virðist engan endi taka. Okkur langar að draga fram um­ræðu um að við erum gríðar­lega stór hópur fólks sem hafa verið á þessum stað en fögnum nú lífinu, eða erum þakk­lát fyrir að hafa ekki náð að fara, eða erum í það minnsta sátt í dag. Við erum ekki alltaf himin­lifandi eða hoppandi kát, en við erum ekki í enda­lausu ströggli. Ekki frekar en öll önnur! Höfundar eru Hugar­afls­fé­lagar og tveir af höfundum bókarinnar Boða­föll, nýjar nálganir í sjálfs­vígs­for­vörnum.