Það þarf að tala meira um klám. Samkvæmt rannsóknum sjá börn allt niður í sex og sjö ára klám óvart á netinu og vísbendingar eru um að fyrsta áhorf barna á klám sé í kringum 11 ára aldur. Ég vil helst ekki vita af ellefu ára börnum að horfa á klám en ég veit samt af þeim og vil þá frekar að eitthvað sé gert í því.
Skiljanlega veldur þessi þróun mörgum foreldrum og forráðamönnum barna miklum áhyggjum. Gleymum því ekki að skaðlegar afleiðingar klámáhorfs geta verið miklar og langvarandi og sérstaklega fyrir börn og ungmenni.
Sama hvað þér finnst um klám þá er ekki hægt að neita því að mikið áhorf á klám getur breytt viðhorfum fólks til sjálfsmyndar sinnar, til kynjahlutverka og til kynlífs. Það getur haft áhrif á það hvar fólk setur mörk sín í kynlífi og að annað fólk virði ekki þessi mörk. Það þarf að taka alvarlega.
Fyrir þrettán árum skrifaði ég meistararitgerð um skaðleg áhrif kláms og hvort að klám sé í raun mannréttindabrot. Þetta var ákaflega skemmtileg vegferð í meistaranámi mínu í Lundúnum sem ég tók ekkert lengra en hef alltaf áhuga á. En umræðan um klám hefur breyst mikið síðan þá og heimurinn líka. Ritgerðin mín er líklega löngu úrelt því ekki er efnið bara aðgengilegra heldur er líka auðveldara að búa það til.
Við erum öll með myndatökuvél í vasanum sem framleiðir efni í miklum gæðum ef við viljum. Sama tæki er líka með aðgang að interneti og á sama tíma að klámi. Efni sem er í dag einmitt miklu grófara og ofbeldisfyllra en þegar ég skrifaði ritgerðina mína. Börn eru með sama tæki í vasanum en munurinn á þeim og okkur, fullorðna fólkinu, er að þau eru ekki með vitneskju okkar og reynslu. Þau vita ekki hvað býr að baki framleiðslunni eða að raunveruleikinn er ekki eins og hann birtist þeim þarna.
Það þarf því að ræða þetta. Miklu meira og við miklu fleiri. En það vitum við svosem, og höfum vitað í langan tíma. En það er eitt að vita eitthvað og svo annað að gera eitthvað í því.
Það er ekkert auðvelt verk að ræða þessa hluti við börn og ungmenni en það er gríðarlega mikilvægt. Foreldrar og forráðamenn hafa margir saknað leiðbeininga sem hafa verið illfáanlegar en það breyttist í gær þegar Stígamót gáfu út leiðbeiningar um hvernig sé gott að taka þetta samtal við börn og ungmenni.
Leiðbeiningarnar eru hér. Hefjum nú samtalið fyrir alvöru. Það er nóg í húfi.