Zeibekikó er grískur og sérstæður dans, ekki síst fyrir þær sakir að aðeins einn má dansa hann í einu. Reyndar má annar fylgja dansaranum og slá taktinn með flötum lófum í gólfið en þó er betra fyrir þann að vera í hæfilegri fjarlægð því dansarinn gæti átt það til að henda diskum eða öðru lauslegu í gólfið ef stuðið keyrir fram úr öllu hófi. Svo rammt kveður að þessum óskráðu reglum að einn frægasti morðingi Grikklands, Nikos Koemtzís, vann ódæði sitt einmitt á þremur mönnum sem ekki virtu þær.

Það kvöld var bróðir hans einn í Zeibekikó-dansi, eins og hefð gerir ráð fyrir, þegar ósvífinn dansari gerði sér lítið fyrir, þeysti fram á gólfið og steig arnardansinn eins og ekkert væri sjálfsagðara. Líkaði Nikosi þetta svo illa að hann dró upp rýting með fyrrgreindum afleiðingum. Ólíklegt má teljast að einhver hafi setið og klárað bjórinn meðan á verkinu stóð. Hitt er víst að þegar Nikos var búinn að sitja af sér dóminn gaf hann út sjálfsævisögu sína og sást iðulega á sunnudögum við basar einn í Aþenuborg að selja hana svo það er ekki bara í Austurstræti sem menn með ægilega fortíð bjóða ritverk sín.

Nú eru skemmtanahaldarar í miklum kröggum og því kannski ekki seinna vænna að bjóða upp á þennan dans hér á landi því ekki er hægt að stunda hann öðruvísi en með því að virða fjöldatakmarkanir og fjarlægðir. En þá væri líka réttast að stinga þá ekki á hol sem kynnu að fara á skjön við reglurnar.