Loksins kom að því að einhver furðulegasti og ómerkilegasti stjórnmálamaður Vesturlanda hrökklaðist frá völdum.

Lýðskrumarinn Boris Johnson, sem lofaði þjóð sinni gulli og grænum skógum ef hún bara segði sig úr lögum við samfélag evrópskra lýðræðissinna, hefur setið lengur á stóli forsætisráðherra Bretlands en efni stóðu til.

Boris trúði ekki sjálfur bullinu sem hann matreiddi ofan í breska kjósendur fyrir Brexit-kosninguna. Það hentaði honum bara að Brexit yrði ofan á vegna þess að þá taldi hann leið sína í forsætisráðherrastól og heimilisfesti í Downingstræti 10 greiða. Heill og hagur þjóðarinnar skipti hann engu máli.

Boris er dæmigerður flautaþyrill sem í engu er á treystandi. Þessu hafa breskir kjósendur kynnst illþyrmilega. Sama má segja um nánustu samstarfsmenn hans. Raunar má það furðu sæta hversu lengi helstu forystumenn breska Íhaldsflokksins stóðu við bakið á svikulum, lygnum og óhæfum forsætisráðherra.

Vonandi bera Bretar gæfu til að vinda ofan af ruglinu sem stjórnartíð Boris Johnson hefur borið með sér. Dæmin sýna að vegna Brexit hefur verið skortur á eldsneyti og matvöru víða um Bretland. Almenningur sýpur seyðið af því að hafa kosið yfir sig trúð.

Brexit, sem átti að vera hetjudáð Boris, verður best lýst sem ofur- klúðri fyrir þjóðina.

Einhvern veginn fyrirgáfu Bretar Brexit-klúðrið, í öllu falli enn sem komið er, en þeir láta ekki bjóða sér forsætisráðherra sem segir eitt og gerir annað, leiðtoga sem ætlast til að almenningur færi fórnir en lætur sjálfur ekkert á móti sér, heldur drykkjuveislur fyrir vini og samstarfsmenn á sama tíma og almenningur er lokaður inni í samkomuhöftum vegna heimsfaraldurs.

Einhverjir hafa litið á Boris sem pólitískan töframann. Nú hafa töfrarnir brugðist honum. Eftir stendur hryggðarmynd trúðsins sem hefur verið afhjúpaður sem lygari, hrokagikkur, ósvífinn og eigingjarn.

Á Íslandi á hann þó alla vega einn aðdáanda, leiðarahöfund Morgunblaðsins, sem mærði trúðinn svo mjög í leiðara á fimmtudaginn að jafnvel hörðustu aðdáendum beggja í lesendahópi blaðsins hlýtur að hafa svelgst á morgunkaffinu.

Bretar sjálfir vita að farið hefur fé betra en Boris Johnson. Þeir gráta ekki trúðinn.