Þótt lýðræðið sé okkur oft hugleikið og sérfræðingar ýmissa fræðigreina verji drjúgum tíma í rannsóknir sem því tengjast, höfum við sjaldan fengið jafn beint í æð hvernig innsti kjarni þess virkar og hversu frábærlega hugsað þetta fyrirbæri er.

Ábyrgð á niðurstöðum kosninga og hvaða frambjóðendum þær veita brautargengi verður ekki hengd á tiltekna einstaklinga heldur á torskilgreindan, ópersónugreinanlegan og í raun hálf dularfullan vilja kjósenda. Frambjóðendur og grasrót flokka geta bölvað formanni sínum eða kosningastjóra fyrir slælegan árangur, en þó getur hvorugur þeirra í raun borið ábyrgð á því hvort tiltekinn frambjóðandi nái kjöri. Sú ákvörðun er í höndum kjósenda sem vita ekki einu sinni sjálfir hver lokalendingin verður. Á endanum hefur vonsvikinn frambjóðandi engan nema kosmósið til að kvarta við undan tapi sínu og að sama skapi eru félagar hans í stjórnmálunum lausir undan því oki að bera á einhvern hátt persónulega ábyrgð á gengi hans. Þangað til nú.

Við upplifum nú þær fáránlegu aðstæður að jafnt samherjar sem andstæðingar í stjórnmálum kunna að geta haft bein áhrif á hvort tilteknir einstaklingar fá sæti á Alþingi sem fulltrúar sinna kjósenda.

Þingmenn nokkurra flokka eru í þeirri stöðu að ákvarðanir þeirra geta ráðið því með beinum hætti hvor af tveimur félögum þeirra fær sæti á Alþingi og í þingflokki viðkomandi flokks.

Sé þetta skoðað enn nánar koma í ljós fleiri og ískyggilegri vandræði. Til dæmis geta þingmenn Sjálfstæðisflokksins haft í hendi sér örlög nýs þingmanns, sem í starfi sínu sem blaðamaður hefur gert bæði formanninum og flokknum fleiri skráveifur en nokkur annar blaðamaður í okkar samtíma.

Þessi staða; annars vegar vald þeirra einstaklinga sem skipa hið nýja þing og hins vegar óvissan sem nagar þau tíu þingmannsefni sem dansa á línunni, opinberar hve stórkostlega hugsað fyrirbærið lýðræði er. Og hve viðkvæmt.

Hún dýpkar skilning okkar á kjósendum sem fyrirbæri. Hve mikilvæg einkenni persónuleysis og ábyrgðarleysis á niðurstöðunni eru fyrir hugmyndina um lýðræði og framkvæmd þess.

Það verður brekka að finna leið út úr þeim vanda sem nú þarf að leysa. Allar leiðir virðast vondar og hver og ein gefur fyrirheit um frekari vandræði, verði hún valin.

En þegar frá líður verðum við vonandi reynslunni ríkari. Við höfum séð lýðræðið brotna, horft inn í sárin og það eru þau sem kenna okkur – ef við viljum læra – hvar töfrarnir liggja.