Formaður Sjálfstæðisflokksins geldur varhug við töfralausnum Evrópusambandsins. Það er auðvitað hans skoðun – og hana ber að virða.

En valkosturinn er þá væntanleg töfralausn Íslands, sú útgáfa af samfélagi sem blasir við eyjarskeggjum á endimörkum álfunnar.

Og sú lausn felur í sér eitt sveiflukenndasta hagkerfi sem þekkist á byggðu bóli þar sem boðið er upp á svo afleitan gjaldmiðil að forkólfar fyrirtækja á meginlandi Evrópu láta það ekki hvarfla að sér að fara út í samkeppnisrekstur á Íslandi.

Fyrir vikið hefur ríkt framfærslukostnaðarkrísa hér á landi svo áratugum skiptir, enda hefur fyrirsjáanleikinn í heimilisbókhaldinu aldrei verið til staðar. Enginn veit hvað krónan kostar hverju sinni. Gengi hennar hefur verið fellt svo reglulega á síðustu fimmtíu árum eða svo að varla verður tölu á komið. Og ekki um einhver nokkur prósent, heldur um fimmtíu prósent hverju sinni, í besta falli um tuttugu prósent, en jafnvel líka um meira en 130 prósent. Síðast í hruninu veiktist hún um nálega fimmtíu prósent.

Og verðgildi hennar hefur og mun verða á huldu. Og þess vegna er boðið upp á breytilega vexti á Íslandi. Almenningur tekur lán án þess að hafa hugmynd um hvað það kostar hann. Það er einmitt töfralausn Íslands. Krónan kostar bara það sem henni sýnist.

Og þetta er svona svipað því að fara út í húsgagnaverslun og kaupa þar hægindastól sem kostar eitthvað allt annað heimkominn en verðmiðinn í búðinni gaf til kynna. Þvílík hægindi.

Þess utan felur töfralausn Íslands í sér hæstu vexti álfunnar, dýrustu tryggingarnar, hæsta matarverðið, hæsta verðið á víni og bjór – og hvergi er skattbyrði meiri á almenning nema ef vera kynni í Svíþjóð.

Og guð forði landsmönnum frá því að búa við örorku eða að eldast, því þá er skattheimtan enn þá ómannúðlegri. En það er væntanlega vegna þess að stjórnvöld hafa komið auga á dýpstu vasana í þeim hópum. Og þeir eru einmitt tæmdir, helst oftar en einu sinni, til að hlífa ríkasta parti þjóðarinnar við íþyngjandi gjöldum.

Töfralausn Íslands er að vera utan Evrópusambandsins, þótt fyrir liggi að evrópski efnahagssamningurinn sé langsamlega veigamesti áfangi þjóðarinnar á leið til réttarbóta og ríkari afkomu.

Töfralausn Íslands er einmitt að vera utan þess sem helst og best hefur hjálpað þjóðinni á síðustu þremur áratugum.