Á dögunum stóð Amnesty International fyrir herferð undir slagorðinu „Tjáningarfrelsið má aldrei veikjast“. Markmiðið var að vekja athygli á mannréttindabrotum tengdum skerðingu á tjáningarfrelsi víða um heim og hve lánsöm við Íslendingar erum að mega tjá okkur óhindrað og óttalaust án ólögmætra afskipta ríkisvaldsins. Herferðin vakti mig til umhugsunar um tjáningarfrelsi yngsta og viðkvæmasta fólksins okkar.

Ung börn eru með þeim takmörkunum gerð að geta ekki tjáð sig með orðum. Röddina nota þau samt óspart og stundum með þeim afleiðingum að fullorðnum líður ekki vel í návist þeirra. Atferli barna er að sama skapi tjáningarmáti sem er misjafnlega skiljanlegur og krefjandi. Sem betur fer er flestum börnum oftast mætt af skilningi og hlýju en stundum reynir tjáning þeirra verulega á þolrif hinna fullorðnu. Þá eiga sumir það til að hverfa inn í eigin heim, aðrir reiðast, yfirgefa barnið, skamma það eða refsa því á annan hátt. Viðbrögð hinna fullorðnu stafa stundum af þeirri ranghugmynd að samkennd með börnum jafngildi linkind og valdi því að börn gangi á lagið, verði enn þá „erfiðari“, óþolandi stjórnsöm og frek. Svo eru þeir sem hafa ekki getu til að bregðast við börnum á viðeigandi máta, bæði foreldrar og fólk sem kemur í þeirra stað.

Hvað svo sem veldur hafnandi og óviðeigandi viðbrögðum fullorðinna gagnvart börnum draga þau lærdóm sem sjaldnast er sá sem vonast er eftir. Sterkustu skilaboð höfnunar eru að maður sé ekki eftirsóknarverður. Fyrir barn eru slík skilaboð dauðans alvara því að án umönnunar fullorðinna getur það ekki lifað. Upplifi barn að tjáning þess fæli mikilvægasta fólkið í lífi þess frá eða geri það hættulegt á það um tvo kosti að velja: Að hafa hærra eða þagna. Kornung börn geta látið lítið fyrir sér fara og reynt að bjarga sér sjálf en þannig fara þau á mis við mikilvæg þroskatækifæri. Önnur garga hærra og trufla meira. Í stað þess að spyrja „hvað í tjáningu barnsins þurfum við að skilja betur?“ höfum við tilhneigingu til að segja „það er eitthvað að þessu barni.“ „Erfið“ börn eru ekki sett í fangelsi, eins og truflandi fullorðnir einstaklingar þar sem tjáningarfrelsi er skert, en það er hefð fyrir því að setja þau í skammarkrók. Við eyðum líka meira púðri í að breyta tjáningu barna heldur en að reyna að skilja hana og bætum stundum um betur með sjúkdómsgreiningum og lyfjagjöf.

Börn tjá sig öðruvísi en fullorðnir. Á sama hátt og tjáningarfrelsið er grunnurinn að því að geta lifað í opnu og sanngjörnu samfélagi veltur þroski og heilsa barna á að þau fái að tjá sig og að á þau sé hlustað, bæði heima og í skóla. Eigi foreldrar, kennarar og aðrir sem annast börn að geta meðtekið og skilið tjáningu þeirra þurfa þeir sjálfir að vera þokkalega á sig komnir. Því erfiðara sem þeim reynist að setja sig í spor barna því meiri þörf hafa þeir, rétt eins og börnin, fyrir að fá að tjá sig umbúðalaust án þess að verða skammaðir.