Í stórkostlegri senu Péturs Gunnarssonar í bókinni Punktur punktur komma strik, situr söguhetja bókarinnar, Andri Haraldsson, sumarkvöld uppi á opnum traktor sem slær grænt grashafið. Farmallinn silast áfram í hringi sem þrengjast og þökurnar sem sluppu í síðasta hring eru fyrstar til að fara í þeim næsta. Í tímaleysi og æsku­eilífð ungdómsins birtist lífið fyrst sem takmörkuð auðlind í vitund Andra.

Kannski ekki ólíkt því þegar maðurinn sá jörðina í fyrsta sinn utan frá úr geimnum. Þessa himinbláu marmarakúlu, einmana í óravíddum svarteilífðar geimsins, viðkvæma, einstaka og takmarkaða. Rétt eins og við.

Hörður Markús er tíu ára í dag. Sem er besti aldurinn. Áhyggjulaus og áhugasamur gagnvart morgundeginum – laus við eftirsjá yfir gærdeginum, stóreygur yfir undri dagsins, athugull og forvitinn þegar hann vaknar á morgnana.

Okkar allra bíða krefjandi verkefni komandi tíma. Sjálfbærni í lifnaðarháttum er lykillinn að öllum skráargötum framtíðarinnar – hvort sem það er nýting náttúruauðlinda, eining manna eða samvinna þjóða. Eða einfaldlega ástin. Ástin sem þarf að bera sig sjálf og vera í jafnvægi – gagnvart okkur sjálfum, maka okkar og náunga.

Lífið er takmarkað og tímanum stöndumst við ekki snúning. Í sömu senu og vitnað er í ofar segir: „Þú getur hætt að finna fyrir honum (tímanum) með því að éta dóp en hann heldur samt áfram að færa þig nær þessum punkti, hvar hann yfirgefur þig.“ Versta sálardópið er eftirsjá og ótti – þá hættir maður að finna fyrir tímanum.

Okkar sameiginlega verkefni er að finna hugarástand tíunnar og finna hvern dag óbundin – athugul og forvitin. Stóreyg yfir undrinu sem bíður okkar.