Í kjölfar óeirða í og við þinghús Bandaríkjanna bannaði samfélagsmiðillinn Twitter einn dyggasta notanda sinn, Donald Trump. Forsetinn fékk viðvörun um að lokunin gæti orðið endanleg ef hann héldi áfram að birta samsæriskenningar um kosningasvindl og hvetti til frekari óeirða. Skemmst er frá því að segja að aðgangur forsetans verður ekki opnaður á ný.

Samkvæmt tilkynningu frá Twitter var aðgangur eins og @realDonaldTrump hannaður svo almenningur gæti heyrt beint frá kjörnum fulltrúum sínum og þjóðarleiðtogum. Nokkuð sem Trump hefur óspart notað sér og þannig oftar en ekki farið fram hjá hefðbundnum fjölmiðlum sem hann ber skert traust til.

Hugmyndin er sú að þannig geti fólkið haft bein áhrif – en þannig gat Trump haft bein áhrif – ófilteraður og eins og nýjasta dæmið sannar: Stórhættulegur.

Samkvæmt reglum Twitter er skýrt að reikningar þessir eru eins og aðrir háðir reglum miðilsins þar sem bann er lagt við því að hvetja til ofbeldis. Miðillinn getur því algjörlega staðið á lokuninni en ákvörðunin hefur þó varla verið auðveld enda hafa færslur Trumps, hvað sem fólki finnst um þær, haft mikið aðdráttarafl.

Með þessu útspili er valdið að einhverju leyti komið yfir á ókjörna einkaaðila sem geta ákveðið hvernig og hvenær þeir refsa fyrir brot á reglum sínum. Má leiða líkur að því að nú henti ágætlega að loka á Trump, á meðan til að mynda hinn íranski Ayatollah, Ruhollah Musavi Khomeini, er enn virkur notandi sem hlýtur að teljast ákveðinn tvískinnungur.

Töluverðar umræður hafa skapast um það hvort Twitter sé með þessari útilokun að hefta tjáningarfrelsi Trumps sem varið er með fyrsta viðauka réttindaskrár bandarísku stjórnarskrárinnar.

En hvers vegna ætti einkafyrirtæki á við Twitter og síðar Facebook, Google og YouTube, sem öll hafa að einhverju leyti lokað á forsetann, að standa vörð um téð tjáningarfrelsi þegar það augljóslega brýtur í bága við reglur sem það setur notendum sínum?

Síðasta færsla Trumps á Twitter var svo sannarlega ekki sú eina sem miðillinn taldi brjóta gegn reglum en allt frá maí síðastliðnum hafa fjölmargar færslur hans verið merktar varhugaverðar af ólíkum ástæðum.

Eftir kosningaósigurinn hefur Trump helst notað miðilinn til að ráðast á arftaka sinn, afneita sigri hans, birta ásakanir um kosningasvindl og hvetja stuðningsmenn sína til að taka málin í sínar hendur.

Áróðrinum hefur Trump með einu klikki dreift til tæplega 90 milljóna fylgjenda sinna sem margir hverjir, augljóslega, taka ásökunum sem sannleika.

Maðurinn sem úthúðað hefur fjölmiðlum frá fyrsta degi hefur misst aðgang að „fjölmiðlinum“ sem hann sjálfur kaus sér. Miðlinum sem spurði hann aldrei erfiðra spurninga en varaði þó undir lokin við hatursáróðri hans og lygum.

En veraldarvefurinn er endalaus, Trump er nú þegar farinn að finna áróðri sínum nýjan farveg og verður ekki þaggaður niður kjósi hann að tjá sig.

Til þess þarf hann ekki Twitter þó miðillinn hafi sannarlega hjálpað til og flýtt fyrir.