Síðasta vor mætti Michael Gove, breskur ráðherra, í venjubundið sjónvarpsviðtal. Vegna COVID-takmarkana var viðtalið tekið í gegnum fjarfundabúnað og sat Gove heima í stofu. Nú, hálfu ári síðar, man enginn um hvað Gove var spurður. Allir muna hins vegar hvaða bók sást í bókaskápnum á bak við hann. Í þéttskipaðri hillu glitti í bókina „The War Path“ eftir umdeildan, sjálftitlaðan sagnfræðing, David Irving, sem þekktur er fyrir að afneita helförinni.

Önnur umdeild bók komst í fréttirnar hér á Íslandi í vikunni. Myndasagan Tinni í Kongó er komin út í nýrri íslenskri þýðingu. Bókin sem þykir einkennast af rasisma hefur verið fjarlægð úr hillum bókaverslana og bókasafna víða um heim. Útgefandi nýju þýðingarinnar ávarpar lesendur í bréfi sem fylgir bókinni þar sem hann segir forlagið „ekki á nokkurn hátt taka undir þá kynþáttahyggju“ sem birtist í bókinni eða „fáfræði og fordómafull viðhorf höfundarins“.

„Réttsýni er jafnháð tískusveiflum og fegurð,“ ritaði franski heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Blaise Pascal á 17. öld. Ein er sú siðferðisdáð sem virðist alveg dottin úr tísku á 21. öldinni: Umburðarlyndi. Fátt þykir hallærislegra í dag en sú skoðun að okkur beri að virða og jafnvel verja tjáningarfrelsi þeirra sem við erum hjartanlega ósammála.

En úr bókum yfir í sjónvarp. Breska leikkonan Emily Watson sem margir þekkja úr þáttunum Chernobyl upplýsti um það í blaðaviðtali á dögunum að hún hefði alist upp í sértrúarsöfnuði. Hún sagðist hafa kynnst því hvernig það er að búa meðal fólks sem trúir því að það hafi „séð ljósið og allir aðrir lifi í myrkri. Ég tilheyrði samtökum sem telja sig einstök og upplýst.“ Hún sagði frá óttanum við að vera rekin úr hópnum. „Maður heldur að allir fyrir utan séu fáfróðir og hafi rangt fyrir sér. Þannig hafa svona samtök stjórn á fólki – í gegnum ótta ... Þegar fólk fer að trúa á eigin sérstöðu fara vondir hlutir að gerast.“

Siðgæðisverðir samtímans

„Ég fyrirlít það sem þú hefur að segja en ég léti lífið til að verja rétt þinn til að segja það.“ Ekki er langt síðan þessi hugmynd Voltaire um tjáningarfrelsið þótti augljós sannindi á Vesturlöndum. En siðferði er jafnháð duttlungum samtímans og hárgreiðslur og buxnasnið.

Bók í hillu er ekki lengur merki um fróðleiksfýsn heldur innræti lesandans. Tinnabók er gefin út með bón um syndaaflausn. Ásetningur, samhengi, tími og rúm virðast málinu óviðkomandi.

Pólitísk réttsýni er eins og sértrúarsöfnuður. Tískulitir vetrartískunnar 20/21 eru svart og hvítt. Önnur blæbrigði rúmast ekki á tískupallinum þar sem siðgæðisverðir samtímans spranga um í hlífðarfötum fóðruðum með trúarhita, hælaskóm úr sjálfsupphafningu og með skinhelgi sem fjaðurskúf. Þeim sem ekki passa í nýjasta sniðið er úthýst.

Trúarbragðastríð léku Evrópu grátt á 16., 17. og 18. öld en talið er að þau hafi kostað milljónir manna lífið. Lexía stríðanna var umburðarlyndi; mismunandi hópar fólks með mismunandi gildi fundu leið til að lifa saman í sátt og samlyndi.

Umburðarlyndi er ekki samþykki. Í orðinu umburðarlyndi felst dómur; ég er þér ósammála en ég umber skoðanir þínar.

Þeim gengur vafalítið gott eitt til sem vilja uppræta vondar skoðanir í stað þess að umbera þær. Það hefur hins vegar alvarlegar afleiðingar að hafna umburðarlyndinu.

Pólitískur rétttrúnaður, sama hversu vel meinandi, er uppskrift að sundrungu. Þar er fall hans falið. Því á sundrungu þrífast einmitt þau sjónarmið sem pólitískum rétttrúnaði samtímans er ætlað að sporna gegn. Popúlismi er arfi sem dafnar best í dimmum sprungum sundurlyndis. Spyrjið bara Donald Trump.