Eftir tvö krefjandi ár sökum heimsfaraldurs er ljóst að endurreisn ferðaþjónustunnar er hafin af fullum krafti hér á landi. Það eru frábær tíðindi eftir algjört hrun í ferðaþjónustu víða um heim. Gert er ráð fyrir að fjöldi ferðamanna hingað til lands í ár fari fram úr bjartsýnustu spám en áætlanir gera ráð fyrir að heildarfjöldi ferðamanna árið 2022 verði 1,6 milljónir. Útlit er fyrir að helstu kennitölur í greininni verði svipaðar og árið 2019 og jafnvel betri. Þannig benda bráðabirgðatölur Isavia fyrir júlí til að brottfarir ferðamanna hafi verið alls 233.834 eða 101% af heildarfjöldanum sama mánuð árið 2019. Þessi miklu umsvif skipta hagkerfið gríðarlegu máli en gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustu, miðað við greiðslukortaveltu fyrstu 6 mánuði ársins, nam alls 692 milljónum evra. Þá er meðalvelta á hvern ferðamann töluvert meiri en fyrir faraldurinn.

Rík áhersla var lögð á að styðja við ferðaþjónustufyrirtæki í gegnum faraldurinn og verja þannig mikilvæga þekkingu fyrirtækjanna og innviði sem nauðsynlegir eru til að taka á móti fjölda ferðamanna á ný. Að sama skapi var ráðist í auknar fjárfestingar í innviðum svo sem samgöngum og aðstöðu á ferðamannastöðum. Þá vörðu stjórnvöld háum fjárhæðum í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað með markaðsverkefninu „Saman í sókn“ í gegnum allan faraldurinn þrátt fyrir litla eftirspurn eftir ferðalögum á þeim tíma. Meðal minna fyrstu embættisverka sem ferðamálaráðherra var að auka enn frekar kraftinn í markaðssetningu landsins með 550 m.kr. framlagi til verkefnisins.

Staða ferðaþjónustunnar í dag sýnir svart á hvítu að sú góða samvinna við greinina og þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til á tímum heimsfaraldurs eru að skila sér. Kennitölurnar líta vel út og áhugi á lykilmörkuðum á því að ferðast til Íslands hefur aukist. Stjórnvöld og ferðaþjónustan sýndu fyrirhyggju og nýttu tímann vel á tímum heimsfaraldurs til þess að undirbyggja öfluga viðspyrnu ferðaþjónustunnar.