Þann 19. febrúar síðastliðinn hélt hópur fólks í góðu stuði í siglingu niður Colorado ána, í 25 daga ferð um Mikla-gljúfur, þar sem tjaldað var á árbökkum og náttúrunnar notið í algjöru sambandsleysi við umheiminn. Ekkert gsm. Ekkert net. Þegar hópurinn lagði í hann ríkti ferðabann til og frá Wuhan og fólki var ráðlagt að sýna aðgát í ferðalögum til Hong Kong og Japan. Annars allir rólegir. Þegar hópurinn kom á leiðarenda þann 14. mars, beið þeirra á bakkanum þungbúinn maður með mikil tíðindi. Veiran var komin til Bandaríkjanna. Þúsundir smita. Samkomubann á stórum svæðum. Ekkert knús. Engir kossar. Sex fetin, sem vanalega eru notuð til að ákvarða dýpt grafar, voru núna sú fjarlægð sem skyldi viðhalda milli alls fólks í daglegu lífi. Hópurinn trúði þessi auðvitað ekki fyrst. Sumir glottu. Aðrir hlógu. En svo kveiktu þau á símunum sínum.

Merking orðsins óvissa

Óvissa er orð sem að jafnaði er mikið notað. Talað er um óvissutíma við alls konar tilefni. Þetta er orð sem getur auðveldlega misst merkingu sína, því auðvitað er lífið jú alltaf óvissa. Enginn veit almennt hvað gerist á morgun. Á svona tímum hins vegar þegar fyrirsagnir, sem maður hafði aldrei getað ímyndað sér að maður myndi sjá á sinni lífsleið, birtast manni á netmiðlum á degi hverjum, þá opinberast manni alveg ný og tær merking þessa hugtaks: Óvissa. Maður bókstaflega getur ekki hugsað sér með nokkru móti hvað gerist næst. Maður sér ekki hvernig veröldin verður. Heilinn nær ekki utan um það.

Í upphafi einnar vikunnar ætluðu þrjár vinkonur í ferð saman til Póllands, sem þær höfðu hlakkað til lengi. Þær voru brattar. Á miðvikudegi fannst einni þó hugsanlega skynsamlegt að fresta ferðinni. Skiptar skoðanir voru þó í hópnum. Ástandið var ekki svo slæmt. Örfá smit í Póllandi. Voða, voða. En jú, þær frestuðu. Á föstudegi var búið að loka Póllandi.

Hvernig mun okkur líða?

Þetta er alveg nýtt. Heilinn, veröldin, vírus og veldisvöxtur. Hvernig á maður að ná utan um stærðirnar og þróunina? Á laugardaginn fyrir viku féllu 175 manns í valinn á Ítalíu vegna covid. Á laugardaginn síðasta, einungis viku síðar, létust 793. Svona þróun storkar öllum mælikvörðum. Vika er orðin eitthvað allt annað en vika. Og hvað þýða þessar tölur? Hér hjálpar að fá samhengi. Við venjulegar kringumstæður kveðja um 1700 manns á Ítalíu þennan heim á degi hverjum, vegna hárrar elli eða af öðrum orsökum. Það er eðlilegt. Átta hundruð manns til viðbótar á einum drottins degi er katastrófa. Harmleikur. Skelfing.

Enn sér ekki fyrir endann. Alma, Víðir og Þórólfur sögðu okkur Íslendingum í liðinni viku að nú værum við að byrja ferðina upp kúrfuna. Líklega mun þessi kúrfa ná hápunkti um miðjan apríl segir Alma. Það er eftir þrjár vikur. Á tímum þegar vírus hefur breytt allri tímaupplifun og vika er orðin eitthvað allt annað en vika, þá eiginlega finnst manni best að gefast nokkurn veginn algerlega upp í þeirri viðleitni sinni að reyna að spá fyrir um framtíðina. Nokkrir dagar eru liðnir af íslensku samkomubanni. Hvernig mun okkur líða eftir 30 daga? Ég er þegar farinn að þróa með mér vænisýki í verslunum. Hendurnar mínar eru að skrælna út af handþvotti. Ég er farinn að sakna hinna hversdagslegustu snertinga. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að heilsa kunningja mínum í búð um daginn. Paník-eraði. Gekk bara áfram. Held hann hafi ekki séð mig. Allt er í klessu og ástandið er rétt að byrja. Ætli sé ekki best að tefla fram annarri klisju á móti hinni um óvissuna og nota tímann til þess að ljá þeirri klisju líka dýpri og tærari merkingu en nokkru sinni fyrr: Lifum í núinu.

Í bátum

Skref fyrir skref, eins og Eyjólfur söng. Þau eru bara orðin svo furðuleg þessi skref. Hvar verður stigið niður næst? Pirringur er að aukast, segir Víðir. Mun verða veldisvöxtur á honum líka? Hvenær brjálast besserwisserar? Hvenær súrnar á samfélagsmiðlum? Enn er hann aðdáunarverður, samtakamátturinn. Og enn er hægt að hlæja. Móðir mín í kví kví. Breytt merking. Chuck Norris fékk veiruna og veiran er enn þá að jafna sig. Ég hló. Apótek auglýsir á netinu, með óheppilegri orðaskiptingu, “minnum á heimsendi… [lesa meira] …ngarþjónustu.”

Við skulum þó líka búa okkur undir hitt, á þessum óvissutímum, að veruleikinn hvolfist yfir okkur öll með áður ófyrirséðum ógnarþunga. Að sálin fari á staði sem við vissum ekki af. Að ástvinir veikist. Að fólk deyi.

Við erum öll í bátum á leið niður Miklagljúfur. Enginn okkar veit hvernig veröldin verður þegar við loksins komumst á áfangastað. En eitt er ómetanlegt: Við förum þetta saman.

.