Með hærri aldri þykir mér sífellt vænna um tíma minn. Það er eðlilegt því að eftir því sem ég eldist á ég á sífellt minna af honum. Við fæðingu gat ég vænst þess að eiga tæpa 29.500 daga til ráðstöfunar á ævi minni næði ég meðalaldri íslenskra karlmanna sem er um 81 ár. Íslenskar konur eru aðeins ríkari en þær fá 30.500 daga sé miðað við meðalaldur þeirra 83,6 ár. Miðað við núverandi stöðu er ég búinn að eyða 16.680 dögum af þeim 30.500, um 56%, nái ég áðurnefndum meðalaldri. Þá á ég 12.820 daga eftir. Sú tala setur hlutina í samhengi og brýnir fyrir mér að fara vel með þann tíma sem eftir er. Ég hugsa með hneykslan til allra þeirra stunda sem maður sólundaði í vitleysu, sannfærður um að inneignin væri ótæmandi.

Verst er þó sú staðreynd að tíminn líður miklu hraðar eftir því sem ég eldist. Og ekki batnar það. Þegar börn okkar flytja að heiman höfum við samkvæmt rannsóknum varið 90% af þeim tíma sem við eigum með þeim á allri ævi okkar. Þessi litlu 10% sem eftir eru til ráðstöfunar eru svo hefðbundnar fjölskyldusamvistir. Tíminn er því það verðmætasta sem við eigum. Best við hann er að við fáum flest jafn mikið af honum. Við getum alltaf unnið okkur inn peninga og lögmál þeirra er að við eigum yfirleitt meira af þeim eftir því sem líður á ævina. Við getum hins vegar aldrei unnið til baka tapaðan tíma.

Því ætla ég að fara vel með þessa tæpu 13.000 daga sem ég á eftir. Forðast leiðindi, ekki vinna of mikið, sinna áhugamálum mínum og eyða eins miklum tíma með mínum nánustu og vinum og kostur er. Kæri lesandi, við lestur þessa pistils eyddir þú 1-2 mínútum af tíma þínum, ég vona að hann hafi verið þess virði.