Í þessum mánuði minnumst við 75 ára af­mælis kjarn­orku­á­rásanna á Hiros­hima og Naga­saki sem færðu mann­kyninu heim sanninn um eyðingar­mátt einnar kjarn­orku­sprengju. Lang­varandi þjáningar hibakusha – eins og þeir sem lifðu af eru kallaðir í Japan – ættu að vera okkur hvatning til að út­rýma öllum kjarn­orku­vopnum. Þeir sem lifðu af hafa sagt okkur sögur sem ættu aldrei að gleymast um þann hrylling sem í­búar Hiros­hima og Naga­saki máttu þola. Engu að síður hefur kjarn­orku­ógnin enn aukist.

Fitjað hefur verið upp á ýmsum sam­komu­lögum og úr­ræðum til þess að koma í veg fyrir að þessum ein­stak­lega skað­legu vopnum sé beitt og stefnt að því að út­rýma þeim um síðir. En lítil fram­þróun hefur orðið á þessu sviði undan­farna ára­tugi og farið er að fjara undan þessu reglu­verki. Hættan á því að kjarn­orku­vopnum sé beitt viljandi eða ó­viljandi eða fyrir mis­skilning er veru­lega mikil.

Spenna hefur farið vaxandi á al­þjóða­vett­vangi og traust rýrnað á milli ríkja. Sam­skipti þeirra ríkja sem ráða yfir kjarn­orku­vopnum hafa í vaxandi mæli þróast upp í hættu­lega á­rekstra sem ógna stöðug­leika. Ríkis­stjórnir treysta að miklu leyti á kjarn­orku­vopn til að tryggja öryggi. Stjórn­mála­menn hafa uppi stór­yrði um hugsan­lega notkun þeirra og á sama tíma er gríðar­legum fjár­hæðum varið til að auka þann skaða sem þau valda: fé sem betur væri varið í frið­sam­lega sjálf­bæra þróun.

Til­raunir með kjarn­orku­vopn höfðu um ára­tuga­skeið hörmu­legar mann­legar og um­hverfis­legar af­leiðingar. Þessum leifum eldri tíma ber að kasta á ösku­haug sögunnar. Það mark­mið næst einungis með laga­lega bindandi, sann­reynan­legu banni við öllum til­raunum með kjarn­orku­vopn. Sátt­málinn um bann við kjarn­orku­til­raunum hefur sannað til­veru­rétt sinn en engu að síður hafa sum ríki ýmist ekki skrifað undir hann eða ekki stað­fest hann. Af þeim sökum hefur hann ekki fylli­lega þjónað til­gangi sínum sem úr­ræði til að upp­ræta kjarn­orku­vopn.

Rétt eins og lofts­lags­breytingar eru kjarn­orku­vopn ógn við sam­fé­lög okkar. Eyðingar­máttur flestra þeirra rúm­lega þrettán þúsund kjarn­orku­vopna sem nú eru í vopna­búrum heimsins, er mun meiri en sprengjanna sem varpað var á Hirohsima og Naga­saki. Hvers kyns beiting þeirra myndi hrinda af stað mann­legum harm­leik af ó­lýsan­legri stærðar­gráðu.

Það er tími kominn til að endur­vekja þann sam­eigin­lega skilning okkar að enginn getur sigrað í kjarn­orku­stríði sem því ber ekki að heyja. Við ættum að snúa aftur til þess sam­eigin­lega mark­miðs að stefna að kjarn­orku­vopna­lausum heimi og endur­nýja þann anda sam­vinnu sem leiddi til sögu­legra á­fanga í átt til eyði­leggingar kjarn­orku­vopna.

Banda­ríkin og Rúss­neska sam­bands­lýð­veldið búa yfir 90% allra kjarn­orku­vopna og því ber þeim að veita for­ystu. Sann­reynan­leg þrep felast í nýja START-sam­komu­laginu. Fram­lenging þess í fimm ár myndi skapa ráð­rúm til að semja um nýtt sam­komu­lag sem gæti hugsan­lega náð til nýrra ríkja sem búa yfir kjarn­orku­vopnum.

Á næsta ári munu Sam­einuðu þjóðirnar hýsa ráð­stefnu þar sem farið verður í saumana á samningnum um bann við út­breiðslu kjarn­orku­vopna (NPT) sem er einn árangurs­ríkasti al­þjóð­legi samningurinn í öryggis­málum. Hann felur í sér einu samnings­bundnu fyrir­heit fimm stærstu kjarn­orku­vopna-ríkjanna um að stefna að eyðingu kjarn­orku­vopna. Einnig kveður hann á um sann­reynan­legar skuld­bindingar ríkja um að afla ekki og þróa ekki kjarn­orku­vopn. Þar sem hann nær næstum því til allra ríkja er stór hluti al­þjóða­sam­fé­lagsins bundinn af þessum á­kvæðum. Yfir­ferðar­ráð­stefna NPT-samningsins er gott tæki­færi til að vinna gegn því að grafið sé undan al­þjóð­legri reglu í kjarn­orku­málum.

Það er þakkar­vert að flest aðildar­ríki Sam­einuðu þjóðanna eru stað­föst í stuðningi sínum við mark­miðið um kjarn­orku­vopna­lausan heim. Þetta kom skýrt fram þegar 122 ríki studdu sam­þykkt sátt­málans um bann við út­breiðslu kjarn­orku­vopna. Ríkin skilja að af­leiðingar hvers kyns beitingar kjarn­orku­vopna yrðu hörmu­legar. Við getum ekki tekið á­hættuna af því að harm­leikurinn í Hiros­hima og Naga­saki endur­taki sig með hugsan­lega enn verri af­leiðingum. Um leið og við í­hugum þær þjáningar sem hibakusha máttu þola ber okkur að líta á þennan harm­leik sem brýningu til mann­kynsins um að endur­nýja kröfuna um kjarn­orku­vopna­lausan heim.