Við höfum áður skrifað um kosti þess að íslenska ríkið kanni kosti við útgáfu grænna skuldabréfa. Þar sem við skrifuðum áður en kóróna-kreppan reið í hlað, töldum við að nægur tími væri til stefnu, hægt væri að meta málin og síðan taka ákvörðun. Við höfum skipulagt fundi með helstu ráðamönnum um kosti þess að gefa út græn ríkisskuldabréf og sent minnisblað á stjórnvöld.

Hingað til hefur verið vel verið tekið í þetta. Forsætisráðherra greindi á Viðskiptaþingi í vor frá stofnun vinnuhóps um sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs sem ætti meðal annars að greina kosti við útgáfu grænna skuldabréfa. Þá hefur græn fjármögnun bæst við sem aðgerð í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum og í nýbirtri ríkisfjármálaáætlun 2021-2025 er fjallað um mögulega útgáfu grænna ríkisskuldabréfa. Okkur var boðið til fundar við vinnuhópinn þar sem við greindum frá reynslunni af grænni útgáfu á Íslandi og hjá öðrum löndum og vörpuðum ljósi á leiðirnar fram á við.

Reynslan af útgáfu grænna skuldabréfa hér á landi hefur verið mjög góð. Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur, sem Fossar hafa starfað með að útgáfu grænna skuldabréfa, hafa fengið mikla umframeftirspurn eftir bréfunum og notið hagstæðra kjara og hyggjast halda áfram á sömu leið við umfangsmiklar grænar fjárfestingar sem eru fram undan. Fossar störfuðu með fasteignafélaginu Regin að fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu íslensks fasteignafyrirtækis, nokkuð sem heppnaðist framar öllum vonum. Þegar hér er komið sögu hafa Fossar staðið að útgáfu á 68 af þeim 72 milljörðum króna sem hafa verið gefnir út í grænum, sjálfbærum og félagslegum skuldabréfum á íslenska markaðnum og hafa Fossar metnað til að halda áfram á þeirri braut.

Með útgáfu í erlendri mynt verður til nauðsynlegur gjaldeyrir sem þarf til að drífa Ísland áfram út úr kreppunni.

Úti í heimi hafa ríki verið að feta þessa braut, vel heppnaðar grænar skuldabréfaútgáfur Pólverja, Íra og Frakka vöktu mikla athygli og nú á þessu ári bættust Hollendingar, Svíar og Þjóðverjar í hópinn. Meira að segja Þjóðverjar ætla að gefa reglulega út græn skuldabréf á næsta áratug og búa þannig til nýjan vaxtaferil ríkisskuldabréfa (e. yield curve). Bretar ætla nú einnig í græna skuldabréfaútgáfu í fyrsta sinn sem er hugsuð sem viðspyrna við kórónaveirunni.

Ólíkt því sem við töldum öll á sama tíma á síðasta ári þarf ríkissjóður Íslands nú að sækja sér töluvert fé á fjármálamarkaði. Í fjáraukalögum er talað um 360 milljarða króna fjárþörf í erlendri mynt. Við teljum að nú sé málið að gefa út græn ríkisskuldabréf til að koma nýjum stoðum undir fjármál ríkissjóðs. Þannig er hægt að fjármagna aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að fullu, til að takast á við áskoranir í orkuskiptum og samgöngum framtíðarinnar. Um leið verður búin til áhugaverð ávöxtunarleið fyrir lífeyrissjóði sem sækjast eftir grænum fjárfestingum í sínar bækur, en með útgáfu í erlendri mynt verður einnig til nauðsynlegur gjaldeyrir sem þarf til að drífa Ísland áfram út úr kreppunni.

Reynsla annarra þjóða er að græn skuldabréfaútgáfa laðar að sér sterka og ábyrga fjárfesta víðs vegar að, eftirspurnin eykst og áhuginn á útgáfunni vex til muna. Með grænni skuldabréfaútgáfu getur Ísland sýnt að því sé alvara í að byggja upp á sjálfbærum grunni eftir faraldurinn og takast á við loftslagsvána af fullum þunga. Það er ekki eftir neinu að bíða að Ísland bætist í hópinn og stjórnvöld sýni heiminum fram á metnaðarfulla leið út úr kreppu og inn í græna, sjálfbæra framtíð.

Höfundar eru forstöðumaður hjá Fossum mörkuðum og ráðgjafi um ábyrgar fjárfestingar.