Tímamismunur reynir oft á og það getur tekið tíma að jafna sig eftir að hafa ferðast á milli tímabelta. Íslendingar eiga í miklum tengslum við Bandaríkin og við þekkjum því tímamismuninn á milli landanna vel, fjögurra klukkustunda tímamismunur getur reynt á – hvað þá þegar hann er allt upp í átta klukkustundir.

Samvinna og samskipti Íslands og Bandaríkjanna eiga sér langa og góða sögu. Bandaríkjamenn er þjóð sem við höfum viljað tengja okkur við, jafnvel litið upp til. Leiðtogi hins vestræna heims.

Stórveldi sem leiðir nú ekki lengur braut frelsis og framfara heldur fer aftur til fortíðar.

Á svipstundu varð tímamismunurinn á milli Íslands og Bandaríkjanna ekki talinn í klukkutímum, heldur árum og jafnvel áratugum. Stórveldið fór í ferðalag til fortíðar.

Nú taka einstaka ríki vestanhafs ákvarðanir sem munu breyta tilveru milljóna manna til hins verra og ógna heilsu og öryggi kvenna. Þetta er bakslag í réttindabaráttu fólks, sér í lagi kvenna. Helstu fórnarlömbin verða fátækar konur og konur sem búa við ofbeldi.

Í Bandaríkjunum ríkja átök um grunngildi þjóðarinnar. Það sást vel í upphafi árs í fyrra þegar ráðist var á þinghúsið í Washington. Það hefur orðið klofningur milli samfélagshópa, fylkja og innan þjóðarinnar. Það er mikið áhyggjuefni ef sú fylking sem boðar afturhvarf til fortíðar í skálkaskjóli meintrar þjóðernisástar, heldur áfram að komast upp með að skerða sjálfsákvörðunarrétt og frelsi fólks.

Það getur tekið langan tíma að jafna sig á tímaflakki. En það hefur ekki varanleg áhrif. Tímaflakk Bandaríkjanna til fortíðar mun þó hafa skaðleg áhrif og sennilega jafnar samfélagið sig seint.

Þótt það megi sín hugsanlega lítils að tjá sig um veruleika kvenna í Bandaríkjunum þá skiptir máli að sitja ekki hjá og láta það óátalið að ríki sem kennir sig við frelsi skuli þrengja svo freklega að réttindum og frelsi þegna sinna. n