Hinn 3. september 2019 lagði Flokkur fólksins til í borgarstjórn að fundir borgarstjórnar yrðu táknmálstúlkaðir. Eins og sjá má á síðustu dögum hefur færst í vöxt að fréttir og ýmsir fundir séu táknmálstúlkaðir enda tíðindi válynd um þessar mundir og margt að gerast sem allir verða að fá upplýsingar um.

Ég vil ýta við þessu máli núna þannig að hægt sé að hefja undirbúning. Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum. Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Íslenska og táknmál heyrnarlausra eru jafn rétthá.

Í 5. grein laganna um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og dauf blindra segir að notendur íslenska táknmálsins eiga rétt á að upplýsingar sem birtar eru opinberlega og fræðslu- og afþreyingarefni sem ætlað er almenningi verði gert þeim aðgengilegt með textun á íslensku eða túlkun á íslenskt táknmál eftir því sem við á.

Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 7. júní 2011, 3 gr., segir að íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) 2007, fullgiltu hann 2016 en hann mun verða lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020. Lögfesting samningsins mun tryggja að fatlað fólk á Íslandi geti byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti. Með því erum við sem þjóð að skuldbinda okkur til að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. Okkur ber að hlúa að táknmálinu og styðja við það í hvívetna.

Tillögu Flokks fólksins um að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar var vísað til forsætisnefndar og þaðan til aðgengis- og samráðsnefndar. Hinn 5. desember var bókað í nefndinni að tillagan verði send hagsmunaaðilum til umsagnar. Ekkert hefur frést frekar af málinu