Það er á margan hátt flókið að vera til og feta sig fram eftir lífsins vegi. Og það er ýmislegt sem hefur áhrif á hvernig þeirri göngu vindur fram. Sumt er á færi göngumanna sjálfra að ákveða. Annað er ákveðið af öðrum sem ekkert fæst við ráðið.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að ekki skuli allir íbúar heimsþorpsins hafa frelsi til að haga lífi sínu eins og hugur þeirra sjálfra stendur til, heldur eru ofurseldir hörmungum á borð við fátækt, hungur, hvers konar ofríki, landleysi – og jafnvel allt í senn.

Í öllu því stóra samhengi erum við heppin þjóð, þó aldeilis megi ýmislegt betur gera og fara eins og nýlega var á bent á þessum vettvangi.

Í vikunni bárust fréttir af því að alþjóðleg mæling Alþjóðaefnahagsráðsins á kynjajafnrétti í heiminum sýndi að Ísland væri það land sem best stæði í því tilliti. Aukinheldur væri það í tólfta sinn sem sú er niðurstaðan. Mælingin að þessu sinni tók til 156 ríkja. Þetta er gleðiefni þótt betur megi ef duga skal.

Ekki kemur á óvart að lönd þar sem mannréttindi eru fótum troðin í kjölfar langvarandi stríðsátaka og inngróinna forneskjuviðhorfa til stöðu kynjanna skuli mælast verst; Sýrland, Pakistan, Írak, Jemen og Afganistan.

Á margan hátt erum við sem búum í okkar hluta heimsins í forréttindahópi þjóða og tökum því sem við njótum sem sjálfsögðu þótt stór hluti mannkyns eigi ekki kost á neinu sambærilegu. Þar á meðal eru grunnþarfir eins og matur, skjól og heilsa.

Áður en illur hrammur faraldursins læsti sig utan um allt, endasentumst við um lönd og höf. Vörðum helgum í heimsborgum og löngum fríum á framandlegum slóðum og sáldruðum sjálfsmyndum af því öllu um internetið. Jól í Japan og páskar í Paragvæ.

Nú er hlé á því. Þessa páskahátíð höldum við heima fyrir. Ef til vill höfum við gott af því. Þá gefst tilefni til að hægja ferðina, líta í kringum okkur, þakka og njóta þess sem okkur hefur hlotnast. Fyrir ýmsu því höfum við barist og fært fórnir – annað hefur okkur verið fært upp í hendurnar að gjöf.

Sögð er saga af því að fyrir rúmlega tvö þúsund árum hafi verið á meðal manna hér á jörðinni maður, Jesús, og víða fullyrt að hann hafi verið sonur Guðs. Hann hafi dáið á föstudaginn langa fyrir syndir manna og risið upp til himna á páskadag. Þannig sé tilvist hans til vitnis um sigur lífsins yfir dauðanum.

Það eru margir til sem efast um að sagan sú sé sönn. Engu að síður halda þeir minningarhátíð hans, páskana, hátíðlega. Það skiptir engu máli hvort sagan er sönn eða ekki. Ef minningarhátíð Jesú, hvort sem tilvist hans er uppdiktuð eða ekki, verður til þess að við þökkum fyrir lífið, sannast máttur sögunnar.

Kannski verður páskahátíðin þannig eins konar þakkargjörð, þar sem við drögum forréttindablinduna frá augunum og þökkum fyrir tilvistina. Hún er bærilegri hér en víðast hvar í heiminum. Hún er þrátt fyrir allt bærilegri nú en oft áður.

Gleðilega páska.