Sé það einlægur ásetningur dómsmálaráðherra að nýta betur fjármuni í fangelsiskerfinu væri nær að byrja á réttum enda. Afstaða telur nauðsynlegt að byrja á þarfagreiningu og gerð afplánunaráætlana áður en hugmyndin um hagræðingu er sett fram. Félagið telur mikilvægara að draga úr afbrotum og minnka samfélagslegan kostnað vegna þeirra í stað þess að loka einingum sem geta unnið að því markmiði.

Afstaða telur að bygging Litla-Hrauns, fangelsisins með útsýnisturninum, hafi verið mistök. Eina ástæða þeirrar byggingar hafi verið að skapa störf í heimabyggð þáverandi dómsmálaráðherra. Mistökin voru endurtekin með byggingu fangelsisins á Hólmsheiði. Hólmsheiðin er í anda Ameríku, lokuð og leiðinleg. Þar gerist ekkert annað en að menn og konur stara á veggi. Fangar sem koma þaðan út hafa ekki hlotið neina endurhæfingu og þess vegna er líklegra að þeir séu sendir aftur á Hólmsheiði. Afstaða telur að núverandi fangelsiskerfi og viðhorfið í kerfinu framkalli nýja glæpi. Fangelsið á Akureyri er helsta viðspyrnan gegn því.

Fangelsið á Akureyri gegnir mikilvægu hlutverki, en hin smáa rekstrareining hefur verið notuð til að geyma fanga sem erfitt er að hafa annars staðar. Norður hafa m.a. verið fluttir fangar sem hafa þótt skipta sér of mikið af réttindamálum fanga. Nokkrir stjórnarmenn Afstöðu hafa verið fluttir þangað til að losna við “óæskileg” áhrif þeirra í stærri einingum.

Fangar sem hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum í öðrum fangelsum hafa verið fluttir á Akureyri þar sem þeir hafa náð árangri í lífinu. Þannig er litla fangelsið líklega árangursríkasta tækið í að draga úr ítrekun afbrota. Starfsfólk fangelsisins er til fyrirmyndar og vinnur í nálægð við fanga á mannlegum nótum.

Það er í raun óþolandi að sífellt sé verið að kasta fram hugdettum sem verða að veruleika án þess að það sé kannað ofan í kjölinn hversu góðar þær eru. Kerfið ætti að byrja á því kynnast fangahópnum, flokka hann og meta, greina áhættu sem fylgir hverjum og einum og haga sér eftir því. Með þeim hætti mætti hagræða í kerfinu og vinna að hagsmunum samfélagsins.

Varðandi biðlista í fangelsi þá eru þeir langir. Hvers vegna eru rými í fangelsum ekki betur nýtt. Líklega vegna þess að fréttir af biðlistum eru tæki til að auka fjármagn til kerfisins. Þessi aðferð er vel þekkt og notuð víða. Andstæðan eru fréttir um það hversu fáir fangar eru á hverja 100 þús. íbúa á Íslandi. Þær fréttir eru settar fram til í kerfinu til að láta líta út fyrir að íslenska kerfið sér skilvirkt. En hvað gerðist ef allir á biðlista yrðu settir inn. Þá yrðu líklega fleiri fangar á Íslandi miðað við höfðatölu en í Rússlandi og Bandaríkjunum.

Byrjum á því að skilgreina markmið áður en farið er að loka góðum úrræðum.

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.