Straumhvörf hafa orðið í afstöðu og umræðu landsmanna til kynferðisofbeldis á síðustu misserum og er það vonum seinna, enda hefur karllæg ofstækishyggja ráðið þessum málaflokki alltof lengi, með vægast sagt hræðilegum afleiðingum fyrir sálarlíf svo alltof margra – og hafa þar skipst á ráðríki, heimtufrekja, yfirgangur og þöggun, að ekki sé talað um lítilsvirðingu.

Hér skiptir mestu að tilkallinn er búinn að vera. Það er ekki lengur hægt að gera tilkall til þess að fara sínu fram, óháð mörkum og siðgæði. Það er ekki lengur liðið. Óþolið gagnvart hvers konar ofbeldi af þessu tagi hefur náð nýjum hæðum – og er loksins orðið að engu.

Þess vegna eru viðbrögðin við kynferðis­ofbeldi orðin jafn afgerandi og raun ber vitni. Óþolið er algert. Og stjórnir fyrirtækja og stofnana velkjast ekki lengur í vafa um það að þeir starfsmenn sem verða grunaðir eða uppvísir að kynferðisofbeldi, skulu stíga til hliðar, samdægurs – og ef svo ber undir, þar með taldir æðstu stjórnendur þeirra.

Það er ekki lengur hægt að skáka í skjóli þöggunar. Það er ekki lengur hægt að búast við því að menn komist upp með svívirðu af hvaða tagi sem er. Orðspor þeirra er undir, ímyndin og hvaðeina annað sem í askana verður látið.

Og það vilja allir hrista þessa óværu af sér, hvaða vinnustaður sem er, hvaða vettvangur sem er, af því að meðvirkni er ekki lengur í boði, enda er hún partur af ofbeldinu.

Þegar strikið hefur verið dregið jafn rækilega í sandinn og ítrekaðar #MeeToo-byltingar hafa gert hér á landi á undanförnum árum, verður samt sem áður að hafa í huga að landsmenn búa við réttarfar þar sem sakleysi manna gildir þar til sekt þeirra er sönnuð. Þar er um grundvallarmannréttindi að ræða. Þar er enginn afsláttur í boði.

Löngu nauðsynleg barátta og bylting á sviði umræðunnar um kynferðisofbeldi, má ekki verða til þess að gengislækka réttarríkið. Það verður áfram að virða samfélagsgildin í landinu þar sem fyrir liggur að menn gera mistök og stundum mjög alvarleg mistök – og það er í eðli mannsins, enda er breyskleikinn partur af því sem gerir hann að manneskju.

En það breytir ekki því að geri menn mistök verða menn að viðurkenna þau. Það er ekki hægt að gera tilkall til annars. Tilkallinn er nefnilega búinn að vera.