Eitt þekktasta vandamál ellinnar er tilgangsleysið. Smám saman fækkar hlutverkum lífsins. Menn hætta í vinnu og glata stórum hluta af eigin sjálfi. Flestir einangrast þegar þeir missa tengslin við vinnustaðinn. Börnin verða sjálfstæð og þurfa ekki lengur á foreldrum sínum að halda. Barnabörnin eru löngu horfin ofan í símana og nenna ekki að hlusta á sögur af veröld sem var. Smám saman fækkar í vinahópnum vegna eðlilegra affalla. Margir eiga erfitt með að finna sér hlutverk við þessar aðstæður. Lífið fer að einkennast af fullkomnu tilgangsleysi. Menn vakna að morgni og hafa ekkert á dagskránni annað en að fara í bakaríið seinni partinn. Þetta ástand leiðir oft til þunglyndis og tilvistarkreppu hjá eldra fólki.

Miklu skiptir að líf og jafnvel dauði hafi einhvern tilgang. Sighvatur frændi minn Sturluson gekk háaldraður á mót örlögum sínum að Örlygsstöðum 1238, sveiflandi exi og bað ekki griða á banastundinni. Jón Arason biskup fagnaði vaxandi aldri enda fannst honum hver stund skipta máli. Dauði þeirra Jóns og Sighvats var í rökréttu samhengi við líf þeirra og var hluti vegferðar þeirra félaga.

Mikilvægt er að lífið hafi áfram tilgang og einhverja merkingu. Þeim sem hefur nóg fyrir stafni leiðist sjaldnast. Ég ráðlegg öllum mínum sjúklingum sem leiðist að taka þátt í lífinu af lífi og sál. Lesa, skrifa, hreyfa sig og halda kollinum gangandi og taka ekki þátt í neikvæðri umræðu samtímans. Allt of margir freistast til að fara að drepa tímann með alls konar dægrastyttingu sem endar með því að tíminn drepur þá sjálfa úr leiðindum.