Nú hafa verið, fyrir einhver mistök, auglýst laus til umsóknar tvö embætti. Það vantar ríkissáttasemjara og líka háskólarektor. Á sama tíma er ríkislögreglustjóri settur af og fylgja honum aurar. Í sömu mund sækir fólk um embætti útvarpsstjóra og þar ríkir slík leynd að umsækjendur vita varla sjálfir hvort þeir hafa sótt um eða ekki.

Þetta teldist varla til tíðinda ef ekki kæmi til sú staðreynd að það er algjör óþarfi að eyða almannafé í svona auglýsingar. Okkur var nefnilega nýverið sagt og sýnt að hægt væri að færa fólk á milli embætta hjá ríkinu án þess að spandera í auglýsingar og fokdýr ráðningarferli. Þannig var ríkissáttasemjari gerður að ráðuneytisstjóra á dögunum og naut hún nafnleyndar alla leið í ráðuneytið, því er hægt að sameina nafnleynd og tilfærslur þannig að þeir sem haldnir eru nafnleyndarblæti geta haldið því, þrátt fyrir engar umsóknir.

Tilfærslukerfið hefur líka þann frábæra kost að það sameinar skilvirkni, sparnað og dásamlegar uppákomur. Á sparnað og skilvirkni hefur þegar verið bent. Dásamlegheitin liggja í því að Gústav Brynjar Nílsen, fangavörður á Litla-Hrauni, getur vaknað upp sem skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands, Inga Hrútfjörð þingvörður getur á góðum degi orðið útvarpsstjóri (með eða án nafnleyndar), Bjarmi Straumland, ljósamaður í Þjóðleikhúsinu, kæmi sterkur inn sem fangavörður, um leið og Stígur Leiðólfsson myndi færast úr lögreglunni á Ísafirði í embætti vegamálastjóra. Peningalaus gæti svo vegamálastjóri orðið ríkislögreglustjóri.

Þegar vitur maður hefur skrifað þetta upp fyrir þig, lesandi góður, þá sérðu að þetta er harla gott kerfi sem getur ekki klikkað. Og ef þú ert opinber starfsmaður þá skaltu nú þegar hringja í vinnuveitanda þinn og fá upplýsingar um hvar þú átt að mæta í fyrramálið.