Það þarf meira en tveggja ára heimsfaraldur með fjöldatakmörkunum og sóttvarnahólfum til að koma almennilegu róti á tilfinningalíf íslenskrar þjóðar.

Og meira en nokkurra vikna Evrópustríð með skelfilegum afleiðingum fyrir saklausa borgara álfunnar til að koma eyjarskeggjum í útnára hennar í alvöru uppnám.

Skæðadrífa vægðarlausra lægðamergða hefur heldur ekkert að segja. Þá fyrst hvín í tálknum þegar kemur að lokakvöldi íslensku söngvakeppninnar.

Þar er komið að ögurstundu í andlegri líðan þjóðarinnar, því eina sem skiptir hana í raun og veru máli.

Gufunesbardagi

Það er þá sem landsmenn þekkja eðli sitt og upplag. Akkúrat þá skiptast þeir í fylkingar og steyta atgeirana, skekjandi herklæðin og hrækjandi út úr sér ókvæðisorðunum svo undir tekur í nærliggjandi fjöllum.

Og tími Sturlunganna rennur upp að nýju, svo blóðlyktina leggur um heiðar og dali, enda er barist af vörpulegri vígfimi í Gufunesbardaga allra tíma – og engar sættir í boði, hvorki í lífi né dauða.

Og þannig mun lífið á túndrunni tæpu endurtaka sig frá einu vori til annars: vinningslagið er æðislegt eða óþolandi og um það skal barist til síðasta manns.