Ég vil byrja á að fara yfir sögu mína. Ég heiti Ása Nishanthi Magnúsdóttir og er ættleidd frá Sri Lanka árið 1985. Ég hef alla tíð átt mynd af blóðmóður minni sem móðir mín tók þegar hún fékk mig afhenta í dómssal og á skírnardegi sonar míns afhenti faðir minn mér ættleiðingarskjölin.

Eftir að hafa misst báða foreldra mína ákvað ég að fara í leit að mínum uppruna, þótt ég viti að enginn muni koma í stað foreldra minna. Ég skrifaði Sigrúnu Ósk Kristjánsdóttur bréf og sóttist eftir því að fá að vera með í Leitinni að upprunanum á Stöð 2. Það gekk eftir. Í þættinum fórum við yfir ættleiðingarskjölin og flugum út til Sri Lanka. Þar hittum við Auri Hinriksson, sem er frá Sri Lanka en búsett á Ísafirði, en hún hefur síðan verið stór hluti af þessu ferli. Strax í upphafi benti margt til þess að skjöl mín væru fölsuð. Þar stendur til að mynda að ég hafi fæðst á tveimur stöðum, í Wadduwa og Erathna. Við fórum á báða staði í leit að blóðmóður minni en án árangurs.

Eftir heimkomu kom í ljós að Harpa Sif Ingadóttir, jafnaldra mín í Borgarnesi sem var ættleidd frá Sri Lanka átta mánuðum á eftir mér, er með nær nákvæmlega eins ættleiðingarskjöl og ég. Ég leitaði áfram uppruna míns með aðstoð Auri og eftir fimm ára leit tókst okkur að finna konuna á myndinni minni, Chöndru Malini, sem móðir mín heitin hafði alltaf talað mikið um. Eftir DNA próf kom í ljós að hún er ekki blóðmóðir mín, hún hafði einungis verið fengin til að þykjast vera móðir mín í dómssal. Skömmu síðar kom í ljós að hún er blóðmóðir Hörpu. Þar með var endanlega staðfest að öll mín skjöl eru fölsuð.

Nú hafa margir haft samband við mig vegna ættleiðingaskjala þeirra og erum við fjögur sem viljum fá almennileg svör. Fram hefur komið í fjölmiðlum að við komum enn að lokuðum dyrum og engin svör að fá frá þeim aðilum sem tengjast þessu.

Því spyr ég, af hverju fór enginn yfir skjölin hjá þeim börnum sem voru ættleidd frá Sri Lanka? Lögum samkvæmt var það í verkahring dómsmálaráðuneytisins að kanna hvort lögboðnum skilyrðum til ættleiðingar hafi verið fullnægt. Á því var augljóslega misbrestur. Eins hefði verið fullt tilefni til að kanna málið ofan í kjölinn þegar upp komst um fölsuð ættleiðingarskjöl hjá barni sem var ættleitt hingað árið 1986. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta voru aðrir tímar, en þetta hefur mjög mikil áhrif á okkur sem reynumst vera ættleidd með fölsuðum skjölum og hvar er réttlætið fyrir okkur? Við eigum rétt á að vita um uppruna okkar. Einhver verður að bera ábyrgð og viljum við bara fá svör.

Með von um svör.