Alfred Bosch, consejero í héraðsstjórn Katalóníu, birti nýverið grein þar sem hann fullyrti að á Spáni væru „kjörnir þingmenn [katalónskir] og kjósendur þeirra sviptir lýðræðislegum og stjórnmálalegum réttindum sínum af pólitískum ástæðum og engu öðru“.

Það er alls ekki rétt. Málavextir eru þeir að báðar deildir spænska þjóðþingsins samþykktu að leysa fjóra katalónska stjórnmálamenn frá þingstörfum, en þeir hafa verið ákærðir fyrir alvarleg brot og sitja nú í gæsluvarðhaldi og bíða dóms eftir að réttað var yfir þeim í hæstarétti. Rétturinn gerði ýmsar ráðstafanir til að tryggja sanngjarna málsmeðferð og gagnsæi réttarhaldanna, svo sem að sjónvarpað væri beint frá þeim.

Þessir fjórir stjórnmálamenn fengu heimild dómara til að vera viðstaddir setningu þingsins og taka við kjörbréfum sínum. Sú ákvörðun að leysa þá síðan frá þingstörfum var tekin að ábendingu þessara sömu dómara en ekki af pólitískum ástæðum, eins og Bosch heldur fram, því verið var að framfylgja spænskum lögum í samræmi við rökstudda greinargerð frá lagaskrifstofu þingsins.

Bosch nefnir í framhaldi af þessu þrjá spænska frambjóðendur til Evrópuþingsins, þá Oriol Junqueras (í gæsluvarðhaldi) og Carles Puigdemont og Toni Comín (í útlegð á flótta undan spænskri réttvísi). Öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins ber að afhenda Evrópuþinginu lista yfir frambjóðendur sem uppfylla öll skilyrði sem þarf til að unnt sé að tilkynna framboð þeirra formlega. Spænsk kosningalög kveða á um að áður en það sé gert þurfi frambjóðendur að sverja spænsku stjórnarskránni hollustueið í eigin persónu og í Madríd, en það vilja Puidgemont og Comín ekki gera, vafalaust til að komast hjá því að standa fyrir máli sínu frammi fyrir spænskum dómstólum. Junqueras gæti aftur á móti fengið lausn úr varðhaldi svo að hann geti uppfyllt fyrrnefnt skilyrði en ákvörðun um það getur enginn tekið nema til þess bær spænskur dómstóll, þ.e.a.s. hæstiréttur.

Allir þessir stjórnmálamenn geta litið svo á að pólitískum réttindum þeirra séu settar skorður, en það er ekki vegna stjórnmálaskoðana þeirra, eins og Bosch fullyrðir, heldur vegna þess að gjörðir þeirra eru taldar brjóta gegn spænskum lögum. Aðrir þingmenn eiga eftir setjast á spænska þjóðþingið og Evrópuþingið og lýsa yfir stuðningi við sjálfstæði Katalóníu hindrunarlaust, vegna þess að ekki er verið að rétta yfir þeim og þeir hafa ekki verið sakaðir um neina glæpi.

Loks nefnir Bosch nýlega álitsgerð – sem felur ekki í sér skuldbindandi niðurstöðu – vinnuhóps um óréttmætar fangelsanir á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Spánn styður staðfastlega starfsemi Sameinuðu þjóðanna en getur þó ekki annað en látið í ljós djúpstæða undrun yfir þeirri miklu ónákvæmni sem fram kemur í mörgum af niðurstöðum framangreindrar álitsgerðar. Sem dæmi má nefna að horft er fram hjá þrískiptingu ríkisvalds á Spáni, sem er eigi að síður einkenni sérhvers réttarríkis, þegar þess er krafist að ríkisstjórnin láti lausa fanga sem sitja í varðhaldi og bíða dóms, en ákvörðun um slíkt er einungis á valdi dómsvaldsins eins og venjan er í öllum lýðræðisríkjum.

Ofangreindur vinnuhópur setur sig í dómarasæti og er ekki hlutlaus þegar hann gengur út frá því að niðurstaða sé þegar fengin í máli sem hæstiréttur Spánar er að fjalla um núna og dregur með því í efa sjálfstæði réttarins, auk þess sem hann fer út fyrir valdsvið sitt þegar hann heldur því fram að ekki sé grundvöllur fyrir varðhaldinu, hvað þá sjálfum réttarhöldunum. Bosch lætur hins vegar hjá líða að nefna nýlegan úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem var kveðinn upp 28. maí í Strassborg og er lagalega bindandi öfugt við niðurstöður ofangreinds vinnuhóps.

Í þeim úrskurði er því haldið fram að í réttarríki séu lögin sjálf trygging fyrir lýðræði og að ákvörðun stjórnlagadómstóls Spánar um að katalónska þingið skyldi leyst upp 9. október 2017 eftir að það lýsti yfir sjálfstæði Katalóníu, hafi verið í samræmi við lög og „nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi“, enda hafi hún haft það lögmæta markmið að tryggja öryggi almennings og standa vörð um stjórnarskrána.

Ég er sammála Bosch um að Katalóníumenn – rétt eins og aðrir Spánverjar – vilji vera í Evrópusambandinu. Ástæða þess er öðru fremur virðing allra fyrir lögum réttarríkisins, sem leyfa ekki að stjórnskipulagi sé breytt eftir öðrum leiðum en þeim sem samræmast lögum og lýðræði. Í stjórnarskrá Spánar er kveðið á um meiri valddreifingu en í flestum öðrum stjórnarskrám heims, víðtæk völd eru færð til sjálfsstjórnarhéraða ríkisins og mælt er fyrir um löglegar leiðir til breytinga. Eftir þeim leiðum ber að fara.