Andleysi? Dugleysi? Dáðleysi?

Hvaða orð viljið þið nota um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur?

Sleppum því enda er dónaskapur að tala illa um minni máttar.

En altjent er ljóst að Bjarni Benediktsson hyggst ekki sækja peninga þangað sem þeir eru, í ­stór­útgerðar­auðinn, bankana eða ríkustu prósentin sem hafa tekjur sínar af eignum en ekki vinnu, og borga ekki einu sinni útsvar til að greiða fyrir skólana sem börnin þeirra ganga í.

Þar er samt nóg til og ríflega það, eins og Alþýðusambandið hefur réttilega sagt.

Hvers vegna? Er það andleysi eða dáðleysi?

Skíturinn

Þau ykkar sem nennið ennþá að verða hissa eða jafnvel hneykslast á því hvernig Vinstri græn láta hægrið ganga yfir sig á ydduðum hælunum – þið ættuð að minnast orða fráfarandi forseta ASÍ:

„[Stjórnarsamstarfið] verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil.“

Ekki er orðalagið fallegt, en Drífa Snædal er ættuð af Jökuldal og má þetta.

Jökuldælingar hafa líka allajafna rétt fyrir sér.

Látið ykkur ekki heldur koma í hug að Framsóknarflokkurinn hafi hálfa skoðun á ríkisfjármálum. Hann er eins og eggaldin – bragðlaus og næringarlítill, en dregur í sig keim og krydd sem fljóta fram hjá.

Svo er náttúrlega fjármálaráðherrann.

Falson og Panama

Það eru vitaskuld fornaldarbókmenntir – enda 5-6 ára gamlar fréttir – að fjármálaráðherrann birtist í Panama-skjölunum með aflandseyjafélagið sitt, Falson.

Ári fyrr hafði hann verið spurður í Kastljósi hvort hann hefði nokkuð átt í skattaskjólsfélögum.

Svar: „Nei, það hef ég ekki gert.“

Það var ósatt.

Hér gefst ekki tóm til að rekja öll ósannindi Bjarna Benediktssonar um Falson og snúum okkur því að öðru.

Þegar hann hafði lokið við að græja Vafningsmálið sem snerist um að skera nána ættingja úr skuldasnöru – ‑og þar sem hann sagðist hafa verið saklaus vegfarandi með umboð til að veðsetja eignir í útlöndum án þess að skilja eða vita neitt, þótt eitt umboðið hafi að vísu verið frá honum sjálfum, en hvernig átti hann að vita það? – og eftir prívatfund með bankastjóra Glitnis afréð hann að selja hlut sinn í bankanum.

Bjarni Benediktsson ákvað að nota þá tugi milljóna til að leggjast í veðmál.

Ís fyrir alla – pabbi borgar

Okkar yndislegi fjármálaráðherra ákvað semsagt að gera afleiðusamninga við Glitni og veðja á að hlutabréf í alls kyns alþjóðabönkum hækkuðu eða lækkuðu í verði áður en kæmi að skuldadögum fyrir hann sjálfan.

Hann tapaði alltaf, en hélt áfram að veðja eins og fíkill í spilakassa hjá Rauða krossinum.

Á endanum var tapið hátt í fjörutíu milljónir, en eins og sagði í tölvubréfi innan húss hjá Glitni þegar spurt var um greiðslu eftir þetta fjárhættuspil:

„Pabbi hans, Benedikt Sveinsson, verður greiðandi.“

Fallegt af pabba, en hann var líka greiðvikinn þegar hann leyfði syni sínum að gista á Flórída í ótöldum golfferðum.

Til dæmis í húsi í eigu Greenlight Holding, með lögheimili á Tortólu.

Um ekkert þessara – og dæmin eru ótal fleiri – er ljóst hvernig fjármálaráðherra gerði grein fyrir gjafagjörningum föður síns gagnvart skattyfirvöldum.

Hvað þá ókeypis gistingu í boði leynifélags á Tortólu.

Bjarni ákvað samt að halda áfram að skrökva um Falson og á endanum í tilkynningu til Alþingis.

Truflað

En verum sanngjörn.

Á sínum þingmannalaunum var Bjarni Benediktsson bara að reyna að drýgja tekjur sínar. Það er ekkert einfalt að vera fátækur alþingismaður.

Á ferðalagi á kostnað þingsins hnaut Bjarni um íbúð á Flórida með „truflað útsýni“ á „algerlega brjáluðum stað“. Auðvitað keyptu þeir félagarnir þessa íbúð.

Og hinn 6. október 2008, þegar Geir Haarde bað guð að blessa Ísland, þá kláraði Bjarni að borga iðnaðarmönnum á Flórída fyrir truflaða íbúð.

Tveimur dögum síðar – þegar Kaupþing fór á hausinn og þar með fjármálakerfið allt – fengu hönnuðir greitt fyrir ótruflað útsýni.

Vel gert og hárréttur fókus á þessum annars tíðindalitlu dögum.

Skötuselurinn

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var óvænt lentur utan ríkisstjórnar var Bjarni í viðtali.

Jón Bjarnason hafði sem sjávarútvegsráðherra ákveðið að gefa frjálsar veiðar á skötusel, gegn kveinstöfum LÍÚ.

Útgerðin er á „háa c-inu“ út af þessu, hafði Bjarni sagt og var nú spurður:

„Ef vinstri stjórnin félli í dag og þú yrðir forsætisráðherra, hvað yrði þitt fyrsta verk?“

„Að draga til baka skötuselsfrumvarpið.“

Á meðan langflestir landsmenn voru að krafsa sig upp úr hruni með blóðugum klónum var hugur Bjarna Benediktssonar hjá stór­útgerðinni. Út af skötusel.

Andleysi? Dáðleysi?

Við skulum ekki nota svo dónaleg orð, en óska Vinstri grænum til hamingju með fjármálaráðherrann sinn.