Þær hræringar sem verið hafa á alþjóðlegum álmörkuðum síðustu ár og birtast í rekstrarvanda vestrænna álfyrirtækja færa okkur heim sanninn um áhættuna sem getur falist í rekstri Landsvirkjunar.

Vissulega hefur orkufyrirtækið leitað markvisst leiða til þess að draga úr þeirri áhættu, svo sem með því að minnka vægi álverðstengingar í tekjum sínum af raforkusölu, en engum dylst hve mikil áhætta getur fylgt því fyrir fyrirtækið að binda um 75 prósent af raforkusölu sinni við aðeins eina atvinnugrein og einungis þrjú álver.

Sem dæmi selur Landsvirkjun hátt í fjórðung af raforku sinni til álvers Rio Tinto í Straumsvík en eigandi álversins lét sem kunnugt er nýverið að því liggja að rekstri þess kynni að verða hætt.

Í ljósi áhættu þess rekstrar sem Landsvirkjun stundar hníga sterk rök að því að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu á fyrirtækinu. Til mikils er að vinna.

Í fyrsta lagi gerir slík sala það að verkum að skattborgarar munu ekki lengur bera ábyrgð á skuldum Landsvirkjunar en í lok árs 2018 voru um fjörutíu prósent af skuldum fyrirtækisins með ríkisábyrgð. Þrátt fyrir að vægi slíkrar ábyrgðar minnki áfram verður að teljast ólíklegt, á meðan Landsvirkjun er enn í ríkiseigu, að fyrirtækinu verði nokkurn tímann leyft að fara á höfuðið, ef svo má að orði komast, þótt ekki sé bein ríkisábyrgð á öllum skuldum þess.

Í öðru lagi þýðir sala ríkisins að ekki er lengur hætta á að aðrir hagsmunir en þeir sem snúa að því að fyrirtækið skili viðunandi arðsemi – svo sem pólitískir hagsmunir – hafi áhrif á reksturinn. Rekstrarvandi Orkuveitu Reykjavíkur í kjölfar hrunsins er þörf áminning um hættuna sem getur falist í pólitískum áhrifum af rekstri orkufyrirtækja.

Þá væri skráning Landsvirkjunar á hlutabréfamarkað í þriðja lagi til þess fallin að blása lífi í daufan markaðinn. Stöndugur hlutabréfamarkaður ætti með réttu að endurspegla fjölbreytileika íslensks atvinnulífs og því skýtur það skökku við að ekkert fyrirtæki í mikilvægri auðlindagrein eins og orkugeiranum sé þar skráð.

Þá er ótalið hve góður fjárfestingarkostur Landsvirkjun, sem sterkt orkufyrirtæki með erlent sjóðstreymi og yfir 280 milljarða króna í eigið fé, væri fyrir stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóði.

Enn fremur þekkist það víða í Evrópu, meira að segja á Íslandi, að orkufyrirtæki séu að hluta eða fullu í einkaeigu og má í því sambandi meðal annars nefna SSE í Skotlandi, EDF í Frakklandi, Enel á Ítalíu og E.ON í Þýskalandi. Það er engin nýbreytni fólgin í slíku eignarhaldi, heldur þvert á móti.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum, viðskiptablaði Fréttablaðsins.